Fréttasafn



16. des. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Orka og umhverfi

Næsta ríkisstjórn dæmd fyrir það sem hún áorkar í raforkumálum

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í Spengisandi á Bylgjunni um raforkumál ásamt Björg Evu Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra Landverndar. Stjórnandi þáttarins er Kristján Kristjánsson sem segir í inngangi að orkuverð hafi að hækka mikið og búið sé að boða hækkanir á nýju ári.

Sigurður segir að næsta ríkisstjórn verði beinlínis dæmd fyrir það sem hún áorkar í þessu efnum. „Það má segja það að kyrrstaðan í þessum málum hafi verið rofin á kjörtímabilinu sem var að ljúka og ráðherra Guðlaugur Þór var með góðan fund núna í síðustu viku þar sem hann fór annars vegar yfir tillögur til breytinga á rammaáætlun, ferlinu, sem miðar að því að gera það skilvirkara. Hins vegar fór hann yfir yfirlit yfir það sem hefur gerst á undanförnum árum sem er margt. Þannig að það má í rauninni að það sé búið að vinna allt grunnvinnuna upp í hendurnar á nýrri ríkisstjórn þannig að það er ekkert eftir fyrir þau nema bara að framkvæma eða hrinda hlutum í framkvæmd, koma verkefnum af stað.“

Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið

Í máli Sigurðar kemur fram að raforkunotkun gagnavera hafi verið að minnka mjög mikið og hafi ekki verið minni síðan 2017 eða 2018. Hann segir að þau séu að nota núna 40% af því sem þau voru að nota á síðasta eða þar síðasta ári samkvæmt upplýsingum orkuvísa Raforkustofnunar. Þá kemur fram að heimilin noti 5% af raforkuframleiðslunni og um 10 stórnotendur raforku noti aðra framleiðslu. Heimili og smærri fyrirtæki noti um 20% af orkuframleiðslunni og heimilin um 5%. Einnig kemur fram að stórnotendur greiði ekki dreifikostnað heldur bara flutningskostnað. Það sé kannski stóri munurinn í verðlagningunni á milli almennra notenda og stórnotenda.

Sigurður segir að hagsmunirnir séu það ólíkir, sérstaklega hjá orkuframleiðendunum, vinnsluaðilunum, að það hafi ekki náðst samstaða um það hvernig ætti að tryggja raforkuverð. Hann segir að hagsmunirnir séu það flóknir að þingið treysti sér ekki til þess að afgreiða málið núna síðasta vetur. „En það er alveg ljóst að það bíður nýs þings að taka á þessu.“

Fyrirtækin kaupi ekki raforku á hvaða verði sem er

Þegar Kristján spyr hvort setja eigi verðhemil á raforkuverð til heimila segir Sigurður að það megi alveg skoða það. „Við höfum í sjálfu sér ekki tekið afstöðu til þess nákvæmlega hvaða leiðir eigi að fara en við höfum auðvitað bent á að sú leið sem verði farin má ekki leiða til þess að það muni komast á einhverskonar ójafnvægi á markaðinn. Þar höfum við líka tekið undir áhyggjur Landsvirkjunar.“ Hann segir að fyrirtækin séu líka næm fyrir verði, þau munu ekki kaupa raforku á hvaða verði sem er. „Þau eru á sama báti og almenningur.“

Í máli Sigurðar kemur fram að mikill meirihluti landsmanna í könnun sem var gerð hafi verið fyrr á þessu ári komi í ljós að 97% þeirra sem tóku afstöðu séu hlynntir grænni orkuvinnslu, frekari grænni orkuvinnslu, og þar liggi skýr vilji almennings. Hann segir að ef talað sé um forgangsröðun þá sé lykilsurningin hver eigi ekki að fá raforku. 

Það þarf að virkja meira

Sigurður segir að grundvallaratriðið sé að það þurfu að virkja meira. „Það hefur ekki gengið vel hjá okkur. Það hefur verið sem betur fer þá hefur kyrrstaðan verið rofin núna á síðustu 2-3 árum og framkvæmdir eru að fara af stað. Búrfellslundur og Hvammsvirkjun eru góð dæmi um það. En fjölmargir aðilar, t.d. í aðdraganda kosninganna núna, lýstu yfir áhyggjum sínum af stöðunni núna eftir þann tíma, frá 2030 og lengra. Það má ekki gleyma því að ferlið er býsna langt miðað við núgildandi löggjöf, það tekur um 12 ár að undirbúa og framkvæma vatnsaflsvirkjun ef allt gengur eftir. Dæmin eru náttúrulega um miklu lengri tíma. Hvammsvirkjun er búin að vera í undirbúningi í aldarfjórðung svo dæmi sé tekið. Við þurfum því sannarlega að hafa áhyggjur af þessu núna fram á veginn. Þarna þarf að hugsa svo langt fram í tímann.“

Framboð ekki fylgt vexti og viðgangi samfélagsins

Í viðtalinu segir Sigurður að það hafi of lítið verið gert og þess vegna séum við í þeirri stöðu að verðið er að hækka. „Við erum að sjá það á síðustu 12 mánuðum í greiningu sem við birtum nýlega að verð samkvæmt mælingum Hagstofunnar hefur hækkað um 13% á einu ári sem er býsna mikið. Verð fimm ár þar á undan hækkaði um 17%. Á sama tíma samkvæmt ársreikningum Landsvirkjunar hækkaði verð til stórnotenda um ríflega 30%. Ef við skoðum upplýsingar frá markaðnu, Vonarskarði, þá sjáum við að verð til afhendingar í janúar eða á fyrstu mánuðum næsta árs hefur hækkað núna á skömmum tíma um rúmlega 30% frá því í júní. Þetta segir sína sögu um stöðuna. Þarna er markaðurinn sjálfur ekki vandamálið heldur er þetta birtingamynd af stöðunni. Það er of lítið framleitt.“ Hann segir að við séum ekki að sjá nýja stórnotendur koma inn á markaðinn heldur sé þetta bara að framboðið hefur ekki fylgt vexti og viðgangi samfélagsins.

Þá kemur fram í máli Sigurðar að það komi ekki inn nýtt framboð af raforku fyrr en eftir 2-3 ár í fyrsta lagi þegar Búrfellslundur kemst í gagnið og svo kemur Hvammsvirkjun eftir 4-5 ár kannski. „Við verðum því miður í erfiðri stöðu alveg þangað til.“

Tapaðar útflutningstekjur vegna raforkuskerðina

Sigurður segir að raforkuöryggi sem snúist um það hvernig gæðunum sé skipt en ekki um það að búa til meira. „Það er auðvitað grunnvandinn hjá okkur. Það hefur verið ljóst í þó nokkurn tíma. Skerðingar voru fyrir 3 eða 4 árum fyrst svona af alvöru og þá var talað um það að þetta væri tilfallandi út af lélegum vatnsárum og svo framvegis. En einhverja hluta vegna hafa þessar skerðingar verið núna á hverju einasta ári og þær verða viðameiri með tímanum. Kostnaðurinn við þetta er mikill. Við mátum það síðasta vetur að tapaðar útflutningstekjur hefðu numið 14-17 milljörðum og gætu orðið meiri í vetur af því skerðingarnar byrjuðu fyrr.“ Hann segir að þetta skipti okkur máli og sú staðreynd að verð til almennings og verð til fyrirtækja á raforku sé að hækka. Sigurður segist heyra dæmi af hækkunum til einstakra fyrirtækja sem nemi 20 til 30% líkt og hjá grænmetisbændum. „Við erum að heyra það víðar. Þetta er slæm staða.“ Hann segir að lausnin hljóti að vera sú að virkja meira. „Það er bara þannig. Það er ekki eins og við séum að finna upp á því hér í þessum þætti hvernig lögmál framboðs og eftirspurnar virkar, það er mjög gamalt mál og við þekkjum það öll.“

Hér er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.

Bylgjan / Vísir, 15. desember 2024.

Sigurður Hannesson og Björg Eva Erlendsdóttir.