Fréttasafn



7. maí 2020

Næsta skref að fjölga störfum og koma fólki aftur í vinnu

Í Viðskiptablaðinu í dag er rætt við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, um niðurstöður úr nýrri könnun sem gerð var meðal stjórnenda aðildarfyrirtækja Samtaka iðnaðarins þar sem kemur í ljós að mikill meirihluti eða 68% stjórnenda íslenskra iðnfyrirtækja telur að COVID-19 heimsfaraldurinn hafi neikvæð áhrif á rekstur síns fyrirtækis og 60% stjórnenda gera ráð fyrir tekjusamdrætti. Í könnuninni kemur fram að 37% ætli að fækka starfsfólki og segir Ingólfur það áhyggjuefni. „Þetta myndi ég segja að væri stærsta áhyggjuefnið í augnablikinu. Í það heila eru um 55 þúsund Íslendingar á atvinnuleysis- eða hlutabótum í dag. Þessi niðurstaða gefur vísbendingar um að ástandið sé ekki mikið að batna. Ég myndi segja að á sviði hagstjórnar væri þetta langstærsta verkefnið framundan. Við höfum verið að grípa fólkið sem misst hefur vinnuna og greiða því bætur og næsta skref er að finna lausn á því hvernig við getum fjölgað störfum. Fókusinn hlýtur því núna að vera færast í viðspyrnuna — við þurfum að koma þessu fólki í vinnu aftur. Það versta sem getur gerst er að missa það í langtímaatvinnuleysi."

Mesta svartsýni í 6 ár meðal iðnfyrirtækja

Þá kemur fram í Viðskiptablaðinu að könnunin sýni mestu svartsýni í sex ár en stjórnendurnir voru spurðir hvernig þeir mætu aðstæðurnar fyrir þeirra fyrirtæki en spurt hefur verið að þessu árlega frá 2014. Í stuttu máli þá hafi stjórnendur ekki verið svartsýnni í sex ár. Nú telja um 52% þeirra að aðstæður sé sæmar fyrir þeirra fyrirtæki. Um 24% telja þær góðar og sama hlutfall, 24%, svöruðu því til að þær væru hvorki góðar né slæmar. Þegar bjartsýnin var sem mest, árið 2017, töldu 65% stjórnenda að aðstæður í efnahagslífinu væru góðar fyrir þeirra fyrirtæki en tæplega 12% að þær væru slæmar. Heimsfaraldurinn og efnahagsþrengingarnar sem honum hafa fylgt hafi augljóslega mikil áhrif á iðnfyrirtækin.

Viðskiptablaðið / vb.is / vb.is, 7. maí 2020.