Næsti vetur ræður úrslitum um hvort loftslagsmarkmið náist
Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdarstjóra SI í fréttum RÚV um fullyrðingar fulltrúa ASÍ í loftslagsráði að stjórnvöld hlífi fyrirtækjum á meðan einstaklingurinn væri látinn sæta ábyrgð á loftslagsmálum. Sigurður segir þetta algjörlega fráleita skýringu. „Sem dæmi um það að þá hefur komið fram á Alþingi að ríkið hefur innheimtu um 45 milljarða af kolefnisgjaldi frá 2010, ríkið hefur haft miklar tekjur náttúrulega á sölu losunheimilda sem hafa verið nýtt líka í málaflokkinn. Fyrirtækin hafa sannarlega lagt sitt af mörkum í þessum málum, bæði vegna hvata frá stjórnvöldum en líka bara sjálfviljug.“ Sigurður segir jafnfram að það vilji fyrirtækin sjá, hvata í báðar áttir og hann segir fyrirtæki um allt land vinna hörðum höndum að því að ná markmiðum stjórnvalda.
Stjórnvöld verji meiri fjármunum í loftslagsmál
Í fréttinni kemur fram að markmið í loftslagsmálum eins og þau séu kynnt í stjórnarsáttmála séu metnaðarfull, 55% samdráttur í losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 og kolefnishlutleysi og full orkuskipti ekki seinna en 2040, Ísland verði fyrst ríkja óháð jarðefnaeldsneyti. „Allt þetta krefst fjármuna og við myndum vilja sjá stjórnvöld verja meiri fjármunum í þetta og kannski vera með aðeins markvissari lausnir.“ Sigurður segir tímabært að bretta upp ermar og fara strax af stað en hann telur að næsti vetur muni ráða úrslitum um hvort markmiðunum verði náð. Hann segir iðnaðinn og atvinnulífið svo sannarlega tilbúinn í það verkefni.
RÚV, 28. júlí 2022.