Fréttasafn14. jan. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Nám í tölvuleikjagerð verður að veruleika

Ný námsleið til stúdentsprófs með áherslu á tölvuleikjagerð verður í boði á vegum Keilis frá og með næsta hausti. Samtök iðnaðarins og Samtök leikjaframleiðenda, IGI, fagna mjög þessum tíðindum en námsbraut í tölvuleikjagerð hefur verið eitt helsta baráttumál IGI á síðustu misserum. Námið hefur verið nokkur ár í burðarliðnum en mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið veita skólanum leyfi til inntöku allt að 40 nýnema á haustönn 2019. Samtök iðnaðarins hafa lagt áherslu á aukningu útflutningstekna og að hugvitsdrifið hagkerfi festist í sessi og er þessi ákvörðun í takti við þær áherslur. Leikjaiðnaðurinn hefur nú þegar náð miklu árangri og skapað auknar útflutningstekjur. Nám í tölvuleikjagerð er lykilþáttur í að Ísland nái enn meiri árangri á þessu sviði og að útflutningstekjur vaxi enn frekar.

Velta í tölvuleikjaiðnaði hefur vaxið mikið

Velta tölvuleikjaiðnaðarins á heimsvísu hefur vaxið mikið á undanförnum árum. Markmiðið er að bjóða upp á nám í tölvuleikagerð sem svarar bæði ákalli atvinnulífsins eftir vel menntuðu og sérhæfðu starfsfólki og áhuga ungs fólks á menntun til starfa í skapandi greinum. Samtök leikja­framleiðenda á Íslandi (IGI) munu veita faglega ráðgjöf við gæðastjórnun og framkvæmd námsins.

Á vef Vísis er fjallað um námið, 14. janúar 2019.