Fréttasafn30. jan. 2017 Almennar fréttir

Nauðsynlegt að bregðast við styrkingu krónunnar

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær nauðsynlegt að bregðast við styrkingu krónunnar og það væri áhyggjuefni ef íslensk fyrirtæki vilja frekar byggja upp starfsemi sína annars staðar en á Íslandi. Frétt Stöðvar 2:

Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir áhyggjuefni að íslensk fyrirtæki séu í mörgum tilvikum að byggja upp starfsemi sína annars staðar en á Íslandi. Nauðsynlegt sé að bregðast við mikilli styrkingu krónunnar meðal annars með því að klára umræðu um frekari gjaldtöku á ferðaþjónustuna. Gengi krónunnar hefur hækkað um liðlega 25% frá miðju ári 2015. Ráðherranefnd um efnahagsmál ákvað á fundi sínum í desember að fela sérfræðingum úr forsætis-, fjármála- og efnahagsráðuneytinu að greina viðvarandi styrkingu krónunnar og vaxandi hættu á ójafnvægi í hagkerfinu. Sérfræðingarnir hafa nú fundað með helstu hagsmunaaðilum meðal annars Samtökum iðnaðarins. Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri samtakanna, segir fyrirtæki í útflutningsiðnaði hafa fundið mjög mikið fyrir styrkingu krónunnar og að stjórnvöld þurfi að bregðast við. 

Almar: „Það er auðvitað, búið að vera mikið fjármagnsinnflæði þannig að við viljum sjá lægri vexti og minni vaxtamun. Við teljum mikil tækifæri í því miðað við undirliggjandi stöðu.“ Þá nefnir Almar útflæði fjármagns vegna fjárfestinga lífeyrissjóða erlendis. „Nú teljum við að staðan sé orðin þannig að það sé bara einfaldlega rétt að setja gólf, það er að segja lífeyrissjóðum sé hreinlega skylt að setja ákveðnar fjárhæðir út en ekki bara upp að einhverju ákveðnu þaki.“ Hann segir augljóst að ferðaþjónustan sé mjög stór þáttur í styrkingu krónunnar, bregðast þurfi við innflæði fjármagns vegna hennar.

Almar:„Þar sjáum við mikla þörf á því að umræða og ákvarðanir um gjaldtöku á greinina verði kláraðar þó að það sé yfirleitt hugsað gagnvart uppbyggingu innviða og annað þess háttar, þá er mjög mikilvægt jákvætt hagstjórnarlegt viðbótarinnlegg í þetta að þetta mun hafa áhrif á innflæði fjármagns og það skiptir máli.“ Það sé áhyggjuefni að íslensk fyrirtæki séu í mörgum tilvikum að byggja upp starfsemi sína annars staðar en á Íslandi. Almar: „Stærsta ástæðan fyrir því að þetta er áhyggjuefni er auðvitað að þarna eru störf sem eru mjög vel borgandi og framtíðarstörf í anda þeirra tæknibreytinga sem eiga sér stað í heiminum og við á Íslandi eigum bara ótrúleg tækifæri í að byggja upp slíkan iðnað og þá þarf umgjörðin að vera í lagi og þá er það mjög slæmt ef að gengið fer langt fram úr því sem að slíkur iðnaður þolir.“

Kvöldfréttir Stöðvar 2.