Nauðsynlegt að Seðlabankinn lækki stýrivexti
„Við þurfum að hafa þungar áhyggjur af stöðunni,“ sagði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í fréttum RÚV um stöðu Norðuráls eftir fund um málið með atvinnuveganefnd Alþingis sem hann mætti á í morgun. „Norðurál er eitt stærsta útflutningsfyrirtækja þjóðarinnar. Þegar 2/3 af framleiðslunni þar detta út verða áhrifin óhjákvæmilega mikil á þjóðarbúið og samfélagið. Það eru fjölmargir sem eiga mikið í húfi. Stórfyrirtæki en líka fjölmörg minni fyrirtæki á svæðinu fyrir utan Norðurál sjálft.“
Þegar Sigurður er spurður hver fjárhagsleg áhrif verða segir hann erfitt að segja til um það. „En ég held það sé alveg ljóst að það er talið í tugum milljarða.“ Þá segir hann í viðtali RÚV að stjórnvöld verði að setja samkeppnishæfni landsins í forgang og nauðsynlegt sé að Seðlabankinn bregðist við með lækkun stýrivaxta í nóvember.
Á vef RÚV er hægt að nálgast viðtalið í heild sinni.
RÚV, 23. október 2025.