Fréttasafn



14. des. 2022 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Nauðsynlegt að byggja íbúðir í takti við þörf á hverjum tíma

Á fjölmennum fundi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Samtaka iðnaðarins sem haldinn var í gær flutti Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, erindi og sagði meðal annars mikilvægt að auka framboð íbúða til að endurtaka ekki sömu mistökin þar sem byggt er of lítið á köflum og stöðugleika í íbúðauppbyggingu vanti. Hann sagði jafnframt að stjórnvöld þurfi að grípi til aðgerða til að hjálpa framboðshliðinni í því efnahagsástandi sem nú er. Stöðugleiki í framboði íbúða væri lykilþáttur í að ná niður verðbólgunni og þar með vaxtakostnaði heimila. Ingólfur sagði nauðsynlegt að byggt væri í takti við þörf á hverjum tíma sem skili sér þá margfalt til almennings í landinu. Hér er hægt að nálgast glærur Ingólfs.

Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri mannvirkja og sjálfbærni hjá HMS, kynnti  nýtt mælaborð HMS þar sem hægt er að nálgast gagnvirkt Íslandskort þar sem hægt er að skoða allar íbúðir í byggingu sem og öll byggingaráform í rauntíma, allt frá útgáfu framkvæmdaleyfis til lokaúttektar. Þannig geta verktakar, lánastofnanir, söluaðilar byggingarefna og fasteignasalar nú loksins byggt áætlanir sínar á staðreyndum. Upplýsingarnar í mælaborðinu eru teknar upp úr mannvirkjaskrá HMS og uppfærast samhliða úttektum í rauntíma. Hægt er að sjá hlutfallslega hversu langt byggingarnar eru komnar.

Þorsteinn Arnalds, tölfræðingur HMS, kynnti niðurstöður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem HMS fékk til að meta hugsanlegt ofmat mannfjölda og hvaða áhrif það hefði á íbúðaþarfagreiningu HMS. Var þetta gert í kjölfar þess að Hagstofan birti nýverið manntal sem gaf til kynna að mannfjöldi væri ofmetinn um 11 þúsund. Á fundinum kom fram að samkvæmt greiningu Hagfræðistofnunar HÍ er mannfjöldi hér á landi ofmetinn um 17 þúsund og hefur ofmatið aukist um 6.500 frá árinu 2015. Á móti komi þó að fólksfjölgun hafi verið umfram mannfjöldaspá síðustu tvö árin. Að mati HMS kollvarpar áðurnefnt ofmat á mannfjölda ekki fyrra mati stofnunarinnar á íbúðaþörf, sem hafi verið á bilinu 3.000-4.000 íbúðir frá því 2019. Það sé mannfjöldaþróunin fremur en sjálfur mannfjöldinn sem hafi úrslitaáhrif. HMS muni endurskoða íbúðaþarfagreininguna, líkt og gert er árlega, og verður sú nýjasta birt í byrjun næsta árs.

Á vef HMS er hægt að nálgast glærur og upptöku fundarins. 

DSC09698Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.

DSC09609Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, Þorsteinn Arnalds, tölfræðingur HMS, og Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri mannvirkja og sjálfbærni hjá HMS.