Nemendafyrirtækið Urri sigraði með vistvænu hundaleikfangi
Nemendafyrirtækið Urri frá Menntaskólanum við Sund var valið Fyrirtæki ársins 2025 í fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla - JA Iceland þar sem þátttakendur eru nemendur frá 16 menntaskólum. Urri framleiðir vistvænt hundaleikfang úr notuðum fiskinetum, tennisboltum og fiskiroði. Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, sérfræðingur í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, hafði umsjón með dómarastörfum í tengslum við keppnishlutann og segir í umsögn dómnefndar að varan sé bæði nýstárleg og umhverfisvæn og veki athygli fyrir sköpunargleði, sjálfbærni og frumkvöðlahugsun.
Frumkvöðlaáfangi sem styrkir tengsl menntunar og atvinnulífs
Um 600 nemendur í 142 nemendafyrirtækjum hófu þátttöku í fyrirtækjasmiðju JA Iceland á vormisseri. Af þeim komust 30 fyrirtæki áfram í dómaraviðtöl og fjárfestakynningar sem fram fóru í höfuðstöðvum Arion banka. Verkefnið byggir á sérstökum námsáfanga sem kenndur er á vorönn, þar sem nemendur stofna fyrirtæki, þróa og selja vöru á vörumessu og skila viðskiptaáætlun.
Áfanganum er ætlað að veita nemendum hagnýta þekkingu í nýsköpun, rekstri og samvinnu. Rannsóknir sýna að þeir sem taka þátt eru líklegri til að ljúka námi, stofna eigin fyrirtæki og verða virkir í atvinnulífinu síðar á lífsleiðinni.
Af þeim 16 framhaldsskólum sem taka þátt eru helmingur skólar sem bjóða upp á iðn-, tækni- og starfsnám, þar á meðal Borgarholtsskóli, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Tækniskólinn, Menntaskólinn í Kópavogi, Fjölbrautaskólinn við Ármúla og Fjölbrautaskólinn á Norðurlandi vestra.
Verðlaun veitt fyrir nýsköpun og frumkvöðlastarf
Fjölmörg önnur nemendafyrirtæki hlutu viðurkenningar fyrir framúrskarandi frammistöðu. Hjartaborg frá Verslunarskóla Íslands hlaut annað sætið og Rs. Snúður frá Menntaskólanum við Hamrahlíð lenti í þriðja sæti. Berjabiti og Turnip Up, bæði frá Menntaskólanum við Sund, voru einnig verðlaunuð fyrir nýsköpun í matvælaframleiðslu og umhverfisvænar lausnir. Tækniskólinn hlaut tvenn verðlaun og var það fyrirtækið Andrúm með lausn sína loftgæði og SR Tuning sem var með pöntunarbundinni framleiðslu, minni lager, minni kostnaður.
Verðlaunin voru afhent af Benedikt Gíslasyni, bankastjóra Arion banka og stjórnarformanni JA Iceland, og Jónu Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun og stjórnarmanni hjá JA Iceland.