Fréttasafn



2. jan. 2019 Almennar fréttir Menntun

Nemendur fái menntun í takt við tímann

Þau ánægjulegu tíðindi bárust nýlega að forritun verður almennt kennd í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Það er vonandi til marks um að fulltrúar sveitarstjórna út um allt land horfi til þeirra miklu breytinga sem fram undan eru í atvinnulífinu og þeirrar nýju færni sem mannauðurinn þarf að búa yfir. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í grein sem birtist í Mannlífi undir yfirskriftinni Menntun í takt við tímann. Í greininni kemu fram að fjórðu iðnbyltingunni sem þegar sé hafin fylgi miklar breytingar á störfum og tækni og nú þegar sé orðið heilmikið misræmi á milli þeirrar færni sem atvinnulífið sækist eftir og færni þeirra sem eru á vinnumarkaði. Það sjáist meðal annars á því að erfitt hafi reynst að manna störf á sviði iðn-, tækni- og raungreina og blasi við að fjölga verði þeim sem útskrifast af þessum sviðum til að mæta þörfum atvinnulífsins. 

Þá segir Sigurður í greininni að það sé til mikils að vinna að ungar kynslóðir fái þá menntun sem þörf er fyrir á hverjum tíma. Hlutverk menntakerfisins sé að rækta þekkingu, leikni og hæfni einstaklinga og styðja þannig við efnahagslega velmegun. Öflugt menntakerfi tengi saman færni mannauðsins og þarfir atvinnulífsins með skilvirkni og hagkvæmni að leiðarljósi. Þær breytingar sem fylgi stafrænni byltingu feli í sér heilmiklar áskoranir. Ör þróunin geri kröfur til þess að breytingar verði gerðar á íslensku menntakerfi og það sé í höndum þeirra sem stýra menntakerfinu að veita nemendum á Íslandi menntun í takt við tímann.

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.