Nemendur í tölvuleikjagerð fá verklega kennslu hjá Solid Clouds
Samstarfssamningur hefur verið gerður á milli Menntaskólans á Ásbrú og íslenska tölvuleikjaframleiðandans Solid Clouds þar sem nemendur á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð fá innsýn í hönnun fjölspilunar herkænskuleikja.
Nanna Kristjana Traustadóttir, skólameistari MÁ, og Stefán Þór Björnsson, fjármálastjóri Solid Clouds, undirrituðu samstarfssamning fyrir skömmu. Í honum felst að Solid Clouds munu útvega allt að fimm nemendum við menntaskólann aðstöðu og tölvubúnað sem hluta af verklegri kennslu þeirra og á þann hátt auka fjölbreytileika og styðja við gæði þess náms sem fer fram í MÁ.
Í tilkynningu frá skólanum segir Nanna Kristjana um samstarfið: „Áhugahvöt í námi skiptir gríðarlega miklu máli og í MÁ vitum við að áhugann eflum við m.a. með því að tengja námið við raunveruleg verkefni í atvinnulífinu. Við höfum fengið verulega góð viðbrögð fyrirtækja í hugverkaiðnaði gagnvart samstarfi og erum með mörg járn í eldinum hvað það varðar. Að fyrirtæki sé tilbúið til þess að verja tíma í samstarf við okkar nemendur er einnig til vitnis um það að bransinn styður við þá vegferð að tryggja námsvettvang fyrir íslensk ungmenni með sérhæfingu í tölvuleikjagerð. Þetta er mjög fjarri því að vera eitthvað flipp, hér erum við að tala um raunverulega færni til framtíðar og mikilvægi þess í okkar samfélagi meira en margan grunar“.
Þá segir í tilkynningunni að undanfarna vorönn hafi nemendur við skólann gert tölvuleiki fyrir barnahorn Keflavíkurflugvallar í samstarfi við Isavia og næstkomandi vetur muni sami nemendahópur vinna verkefni með íslensku tölvuleikjaframleiðendunum CCP og Myrkur Games.
Á myndinni hér fyrir ofan má sjá Stefán Þór Björnsson hjá Solid Clouds og Nönnu Kristjönu Traustadóttur hjá Menntaskólanum á Ásbrú við undirritun samningsins.
Ágúst Máni er nemandi við Menntaskólann á Ásbrú og er meðal nemenda sem fær að vera hjá Solid Clouds.