Netöryggi varðar þjóðaröryggi
Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í síðdegisútvarpi Rásar 2 um netöryggi. Í máli Sigurðar kemur meðal annars fram að í tengslum við netöryggi, upplýsingaöryggi og fjarskiptaöryggi þurfi að hafa í huga fjarskiptatengingar og þá sérstaklega öryggi fjarskiptasæstrengja sem tengja Ísland við umheiminn.
Hann segir að til dæmis geti sjókvíaeldi ógnað öryggi fjarskiptastrengja. „Í því sambandi höfum við hjá SI hvatt til breytinga á fjarskiptalögum til þess að öryggi fjarskiptasæstrengja sé tryggt í hvívetna. Það þarf að okkar mati að breyta fjarskiptalögum ásamt því að skýra verklag og vinnu við sjókvíar nærri fjarskiptasæstrengjum. T.d. er óljóst hvernig eftirliti verði háttað varðandi staðsetningu akkera sjókvía og hvernig aðkoma þjónustuskipa og pramma verður nærri sjókvíunum.“
Þá kemur fram í samtalinu við Sigurð að vegna þessa hafi Samtök iðnaðarins átt í samskiptum við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið sem fari með málefni fjarskipta ásamt ráðherra. „Við væntum þess að brugðist verði við til þess að tryggja öryggi strengjanna og þar með þjóðaröryggi.“
Sigurður bendir einnig á að við eigum öflug fyrirtæki og mjög færa sérfræðinga á þessu sviði.
Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð frá mínútu 16:30.
Rás 2, 10. júní 2024.