Fréttasafn



25. apr. 2016 Gæðastjórnun

Neyðarþjónustan hlýtur D-vottun

 Neyðarþjónustan hefur hlotið D-vottun Samtaka iðnaðarins. D-vottun er fyrsti hluti gæðavottunarkerfis SI sem tekið er upp í fjórum áföngum. Með gæðavottunarkerfinu er stefnt að því að gera rekstur fyrirtækja skilvirkari. Í því fer fyrirtækið í gegnum stefnumótun þar sem afkoma hvers verks eða vöru er skilgreind með það að markmiði að auka framleiðni og hagnað fyrirtækisins.

Neyðarþjónustan rekur tvær deildir: lásadeild og glerdeild. Lásadeild félagsins var stofnuð 1988, rekur verslun og verkstæði í Skútuvogi og sinnir sinnir almennri lásasmíði, lásaviðgerðum, kerfislyklasmíð, neyðaropnunum á læstu húsnæði, bílum eða hirslum. Forritar og smíðar bíllykla og gerir við svissa og sílindra. Býr yfir einum stærsta lyklalager landsins.

Glerdeild hefur starfað í yfir 30 ár á markaði fyrst og fremst í tryggingatjónum fasteigna, aðallega glerísetningar og hurðaviðgerðir (áður Gler og Lásar ehf.) með verkstæði á Skemmuvegi. Sérstaða fyrirtækisins er m.a. útkallsþjónusta/neyðarlokanir allan sólarhringinn sem fyrirtækið hefur starfrækt frá 1995.