Fréttasafn2. des. 2019 Almennar fréttir Lögfræðileg málefni

Neytendastofa féllst ekki á sjónarmið SI

Samtök iðnaðarins, fyrir hönd félagsmanna sinna, kvörtuðu þann 22. febrúar 2019 yfir viðskiptaháttum Modus hárstofu ehf. Töldu SI að fyrirtækið starfaði í andstöðu við iðnaðarlög nr. 42/1978, við veitingu þjónustu sinnar á sviði hársnyrtiiðnar sem er lögvernduð iðngrein, enda var stærsti hluti starfsmanna fyrirtækisins ófaglærður, þ.e. ekki með sveinspróf, og ennfremur var ekki meistari við störf hjá fyrirtækinu, hvorki á starfsstöð fyrirtækisins á Akureyri né í Reykjavík, sem veitti starfseminni forstöðu. Töldu SI að þessi háttsemi fæli í sér villandi viðskiptahætti í skilningi laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Samtökin héldu því fram að það eitt að reka og selja þjónustu á sviði hársnyrtiiðnar án tilskilinna réttinda feli í sér rangar upplýsingar til neytenda um þau réttindi sem liggi til grundvallar starfseminni, hæfni þeirra aðila sem starfa innan fyrirtækisins sem og þær aðstæður sem það starfi í enda skorti með öllu heimild á grundvelli iðnaðarlaga að starfrækja umræddan rekstur.

Neytendastofa tók nýverið ákvörðun í málinu, nr. 50/2019. Féllst Neytendastofa ekki á sjónarmið SI og telur ekki ástæðu til aðgerða í málinu. Ákvörðun Neytendastofu er hægt að finna hér

Samkvæmt 4. gr. laga um Neytendastofu, nr. 62/2005 er heimilt að skjóta umræddri ákvörðun til áfrýjunarnefndar neytendamála.