Fréttasafn



13. jún. 2017 Almennar fréttir Mannvirki

Nokkur þúsund ný störf verða til á næstu árum í byggingariðnaði

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag er sagt frá því að Samtök iðnaðarins áætli að störfum í byggingariðnaði muni fjölga um nokkur þúsund á næstu árum. Rætt er meðal annars við Árna Jóhannsson, sviðsstjóra mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins, sem segir áætlað að um 11.800 manns starfi nú í byggingariðnaði, eða sem svarar 6,2% af vinnuaflinu. Til samanburðar hafi 17.500 manns starfað í greininni 2008, eða 9,8% af vinnuaflinu. Í fréttinni segir að Árni rifji upp að framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði hafi verið lokið þegar tölurnar voru teknar saman 2008. Með hliðsjón af síðustu uppsveiflu og eftirspurn nú telji Árni raunhæft að 2.000 til 3.000 ný störf verði til í byggingariðnaði á næstu árum. Til að setja þessar tölur í samhengi hafi verið að jafnaði 3.823 einstaklingar á atvinnuleysisskrá hjá Vinnumálastofnun í apríl og þar af 227 í mannvirkjagerð. Þá segir jafnframt að tölur fyrir maí hafi ekki verið birtar. 

Morgunblaðið, 13. júní 2017.