Fréttasafn27. apr. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Norræn brugghús funduðu í Reykjavík

Fulltrúar samtaka brugghúsa á Norðurlöndum heimsóttu Samtök iðnaðarins í vikunni. Tilgangur heimsóknarinnar var að halda reglubundinn fund samtakanna en samtök bjórframleiðenda í þessum löndum hafa með sér óformlegt samstarf og hittast reglulega til að bera saman bækur sínar auk þess sem hópurinn hitti íslenska bjórframleiðendur. Fulltrúarnir miðluðu af reynslu sinni varðandi samstarf hefðbundinna brugghúsa og handverksbrugghúsa og hvernig samtökin hafa náð árangri í ýmsum hagsmunamálum gagnvart stjórnvöldum. Þá heimsótti hópurinn Ölgerðina, skoðuðu verksmiðjuna og fengu að smakka framleiðsluvörur.

Ísland með langhæsta áfengisgjaldið af öllum Evrópuþjóðum

Á fundinum kom fram að brugghús í norðanverðri Evrópu búi við mun hærri áfengisgjöld en tíðkast sunnar í Evrópu og eitt helsta hagsmunamál þeirra sé að jafna þann mun. Ísland sker sig þó úr með langhæsta áfengisgjaldið af öllum Evrópuþjóðum. Í heimsókninni kom fram að íslenskir framleiðendur geta lært af norrænu kollegunum, m.a. um gagnasöfnun, samskipti við stjórnvöld og ímynd og fjölbreytileika bjórs sem drykk með mat ekki síður en vín. 

Áhersla á samstarf lítilla og stórra brugghúsa

Á fundinum kom einnig fram að norrænu samtökin eru opin brugghúsum af öllum stærðum og lögð er áherslu á að samstarf lítilla og stórra brugghúsa sé báðum til hagsbóta. Sameinaður iðnaður hafi meiri trúverðugleika og jákvæðari ímynd. Hvor hópur um sig búi yfir sérkennum sem styðja við hagsmuni hins. Þá kom fram að handverksbjór sé í tísku og lítil brugghús víðs vegar um land skapi störf og styðja við ferðamannaiðnað á meðan stærri bruggverksmiðjur hafi meira fjárhagslegt bolmagn til að takast á við hin ýmsu hagsmunamál sem komi allri greininni til góða. 

20180423_152604Fulltrúar norrænu brugghúsanna fyrir utan Ölgerðina.