Norræn keppni í málaraiðn haldin á Íslandi
Norræn keppni nemenda í málaraiðn fer fram á Íslandi dagana 14.-16. ágúst í Ráðhúsi Reykjavíkur. Keppnin er haldin samhliða þingi norrænna málarameistara, NMO – Nordic Masterpainter Organisation, sem haldið er annað hvert ár. Það er Málarameistarafélagið sem stendur að þinginu og keppninni á Íslandi.
Hvert Norðurlandanna fimm sendir sinn keppanda sem er nemandi í málaraiðn. Fulltrúi Íslands er Hildur Magnúsdóttir Eirúnardóttir, nemi í málaraiðn í Tækniskólanum. Camilla Gelmer keppir fyrir Danmörk, Jonas Eckholm fyrir Noreg, Beata Lempiäinen fyrir Finnland og Sandra Mellgrein fyrir Svíþjóð.
Vakin er athygli á að 4 af 5 keppendum eru konur en þess má geta að málaraiðn er sú iðngrein á Norðurlöndunum þar sem kynjahlutföll eru jöfnust. Í Danmörku, Svíþjóð og Noregi er hlutfallið nánast 50% en í Finnlandi er skiptingin komin í 70% konur og 30% karlar í faginu.
Fyrirkomulag keppninnar er þannig að smíðaðir eru keppnisbásar í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem keppendurnir leysa margvísleg málningarverkefni sem fyrir þau eru lögð. Að lokum stendur uppi einn sigurvegari sem að mati dómnefndar hefur þótt leysa verkefnin betur en aðrir. Líkt og áður segir þá fer keppnin sjálf fram 14.-16. ágúst og sigurvegari verður síðan tilkynntur laugardaginn 17. ágúst á galakvöldi þings norrænna málarameistara. Afrakstur keppninnar verður svo til sýnis um næstu helgi, 17. og 18. ágúst.
Kristján Aðalsteinsson, formaður Málarameistarafélagsins: „Keppni sem þessi styrkir samvinnu Norðurlandanna og hvetur til nýsköpunar í faginu. Þegar keppnin hefur verið haldin á hinum Norðurlöndunum hefur hún jafnan vakið mikla athygli. Við hvetjum landsmenn til að kynna sér málaraiðnina með því að koma við í Ráðhúsi Reykjavíkur og sjá þessa ungu málara spreyta sig á krefjandi verkefnum.“
Á myndinni eru keppendur í málaraiðn, talið frá vinstri, Beata Lempiäinen frá Finnlandi, Sandra Mellgrein frá Svíþjóð, Jonas Eckholm frá Noregi, Camilla Gelmer frá Danmörku og Hildur Magnúsdóttir Eirúnardóttir frá Íslandi.
Stöð 2, 15. ágúst 2024.
RÚV, 15. ágúst 2024.
Rætt var við Hildi Magnúsdóttur Eirúnardóttur í kvöldfréttum RÚV.