Fréttasafn21. jún. 2022 Almennar fréttir Mannvirki Samtök arkitektastofa

Norræn samtök arkitektastofa funda á Íslandi

Samtök arkitektastofa, SAMARK, stóðu fyrir ráðstefnu norrænna systursamtaka sinna í Hveragerði dagana 7. – 9. júní síðastliðinn. Fulltrúar SAMARK á ráðstefnunni voru Halldór Eiríksson og Þorvarður Lárus Björgvinsson, formaður og stjórnarmaður SAMARK, auk Bjartmars Steins Guðjónsson, viðskiptastjóra á mannvirkjasviði SI.

Nordisk praktikermöte (NPM) er árlegur viðburður þar sem fulltrúar samtaka arkitektastofa á Norðurlöndunum koma saman og ræða almennt um stöðu greinarinnar og fagleg áherslumál í hverju landi. Undanfarin ár hefur ráðstefnan verið haldin rafrænt sökum samkomu- og ferðatakmarka og fögnuðu fulltrúar ráðstefnunnar tækifærinu til funda hér á landi.

Ráðstefnan í Hveragerði hófst með yfirferð á landsskýrslu hvers lands fyrir sig þar sem farið var m.a. yfir helstu breytingar á stjórnmála-, laga- og reglugerðarumhverfi, markaðsaðstæður, áhrif Covid-faraldursins og helstu áherslumál hverra samtaka fyrir sig á komandi misserum. Eftir yfirferð landsskýrslnanna ræddu fundarmenn um sjálfbærni í hönnun og ábyrgð arkitekta í þeirri þróun, breytingar á byggingarreglugerðum, viðskiptaumhverfi og hnattvæðingu arkitekta, samtakamátt norrænna arkitektastofa í evrópsku umhverfi og hækkandi leyfisgjöld stafrænna lausna.

Til skemmtunar höfðu fulltrúar SAMARK einnig skipulagt fyrir þátttakendur ráðstefnunnar ferð með Aparólu yfir Varmá, sund í jarðhitasundlaugina Laugaskarði í Hveragerði, gönguferð og sundsprett í Reykjadal, skoðunarferð um nýjan miðbæ Selfoss og miðnætur kajakferð við Stokkseyri.

Systursamtök SAMARK í Svíþjóð munu standa fyrir næsta NPM fundi sem fram fer á vormánuðum næsta árs. 

Juni-2022_2

Juni-2022_3