Fréttasafn15. jún. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Samtök arkitektastofa

Norræn samtök arkitektastofa funda í Stokkhólmi

Fulltrúar Samtaka arkitektastofa, SAMARK, sóttu ráðstefnu norrænna systursamtaka sinna í Stokkhólmi dagana 7.-9. júní. Fulltrúar SAMARK á ráðstefnunni voru Halldór Eiríksson og Ásta Birna Árnadóttir, formaður og stjórnarmaður SAMARK, auk Bjartmars Steins Guðjónsson, viðskiptastjóra á mannvirkjasviði SI.

Nordisk praktikermöte, NPM, er árlegur viðburður þar sem fulltrúar samtaka arkitektastofa á Norðurlöndunum koma saman og ræða almennt um stöðu greinarinnar og fagleg áherslumál í hverju landi.

Ráðstefnan í Svíþjóð hófst með yfirferð á landsskýrslu hvers lands fyrir sig þar sem farið var m.a. yfir helstu breytingar á stjórnmála-, laga- og reglugerðarumhverfi, markaðsaðstæður og helstu áherslumál hverra samtaka fyrir sig á komandi misserum. Eftir yfirferð landaskýrslnanna ræddu fundarmenn um kosti og galla sameiginlegs norræns markaðar arkitektastofa, útboðsmálefni út frá kostnaði við þátttöku, áhrif gervigreindar á starfsemi stofanna og möguleikum þeirra til framþróunar, staða kjaraviðræðna innan hvers ríkis var rædd og sameiginleg áherslu mál norrænu samtakanna inn í starfsemi ACE, Evrópusamtaka arkitektastofa.

Sú hefð ríkir að gestir ráðstefnunnar þakki gestgjafa fyrir móttökuna með gjöfum og afhenti Bjartmar sænskum kollegum sínum kertastjaka frá FÓLK Reykjavík að gjöf.

Systursamtök SAMARK í Finnlandi munu standa fyrir næsta NPM fundi sem fram fer á vormánuðum næsta árs. 

Stokkholmur1Bjartmar Steinn Guðjónsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, Ásta Birna Árnadóttir, stjórnarmaður SAMARK, og Halldór Eiríksson, formaður SAMARK.

Stokkholmur2Fulltrúar samtaka arkitektastofa á Norðurlöndunum.

Stokkholmur3Bjartmar Steinn Guðjónsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, flutti erindi á fundinum.

Stokkholmur4

Stokkholmur7

Stokkholmur5Sænsku gestgjafarnir fengu kertastjaka frá FÓLK Reykjavík að gjöf.