Fréttasafn



11. maí 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Norrænir ráðgjafarverkfræðingar fóru yfir stöðuna á fjarfundi

Félag ráðgjafarverkfræðinga, FRV, í samvinnu við systursamtök á Norðurlöndum stóðu fyrir fjarfundi um áhrif COVID-19 faraldursins á stöðu ráðgjafarverkfræðinga í síðustu viku. Fulltrúar allra Norðurlandanna fóru yfir stöðuna í hverju landi fyrir sig og ræddu m.a. framtíðarsýn og aðgerðir stjórnvalda. Á fundinum töluðu Ari Soilammi, RIF Noregi, Henrik Garver, FRI Danmörku, Ingólfur Bender, FRV Ísland, Magnus Höij, Innovationsföretagen Svíþjóð og Helena Soimakallio, SKOL Finnlandi. Í upphafi fundar nefndi fundarstjóri, Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, að nú sem oft áður væri margt sameiginlegt meðal landanna og því mikilvægt að bera saman bækur og ræða þróun og aðgerðir landanna. Margir þættir væru enn óljósir og samskonar fundur verði því aftur haldinn í september.

Áhersla á innviðafjárfestingar en hefur hægst á íbúðauppbyggingu

Í erindunum kom mikilvægi innviðafjárfestinga glöggt í ljós. Í Noregi og Svíþjóð hefur áhersla verið lögð á að viðhalda og bæta í innviðafjárfestingar í vegakerfinu. Á sama tíma hefur hægt verulega á íbúðauppbyggingu í löndunum sem og frekari uppbyggingu annars iðnaðar á borð við framleiðslu. Fjárfesting einkaaðila hefur stöðvast sem og útflutningur sem er mjög stór þáttur af starfsemi í t.d. Danmörku.

Mikil óvissa framundan

Spurningakannanir sem samtökin hafa gert meðal sinna félagsmanna leiða í ljós mikla óvissu þegar líða fer á sumarið þó að mörg verkefni séu áfram í uppbyggingu. Störf ráðgjafarverkfæðinga benda til framtíðar-uppbyggingu og því er áhyggjuefni að sum svið á borð við húsnæðimarkað hafa nánast stöðvast. Opinberir aðilar hafa einnig reynt að bregðast við með því að hraða útborgunum fyrir unnin verk og hefur t.d. Vegagerðin í Svíþjóð flýtt fyrir greiðsluskilmálum úr 30 dögum niður í 15.

Á fundinum var einnig umræða um mögulegar áherslubreytingar sem heimsfaraldurinn kann að leiða af sér. Nefndu fundarmenn þar m.a. fyrst og fremst breytingar þegar kemur stafrænni þróun sem og grænni uppbyggingu og áherslum. 

Auknar innviðaframkvæmdir meðal aðgerða á Íslandi

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, greindi í sínu erindi frá áhrifum COVID-19 á íslenskt efnahagslíf og stöðu ráðgjafarverkfræðinga í því ljósi. Nefndi hann að greinin væri að takast á við mikinn samdrátt núna þegar íslenska hagkerfið væri að dragast saman meira en hefur orðið í yfir 100 ár. Ræddi hann um helstu hagstjórnaraðgerðir sem farið hefur verið í hér á landi til að stemma stigu við þessari óheillaþróun og skapa nauðsynlega viðspyrnu fyrir hagkerfið, þ.m.t. með auknum innviðaframkvæmdum.

Hér er hægt að nálgast glærur Ingólfs.

JKS-mai-2020Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, var fundarstjóri.

IB-mai-2020Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, flutti erindi um stöðuna á Íslandi.