Norrænn fundur um orku- og umhverfismál
Fulltrúar systursamtaka Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins á Norðurlöndunum sem starfa við orku- og umhverfismál komu saman í Helsinki í Finnlandi í síðustu viku. Um er að ræða árlegan fund þessara samtaka sem hefur það að markmiði að fara yfir helstu álitamál á þessu málefnasviði, skiptast á upplýsingum um þau mál og um leið að móta sameiginlegar áherslur þessara samtaka er viðkemur orku- og umhverfismálum, ekki síst hvað varðar hagsmunagæslu gagnvart Evrópusambandinu. Fulltrúi Íslands á fundinum var Lárus M. K. Ólafsson, sérfræðingur á sviði orku- og umhverfismála hjá SI.
Áskoranir á sviði leyfisveitinga
Á fundinum var farið yfir stöðu mála á sviði orku- og umhverfismála á Norðurlöndum og þeim áskorunum sem við þeim blasa á þessu sviði. Umræður á fundinum, og vinnustofum honum samhliða, snérust að miklu leyti um áskoranir á sviði leyfisveitinga á Norðurlöndum. Fram kom að sameiginlegt er með löndunum að leyfisveitingarferlar eru verulegar óskilvirkir og tímafrekir. Mikilvægt er að draga úr flækjustigi hvað þá ferla varðar án þess þó að slá af kröfum sem gera þarf til framkvæmda. Þá kom einnig fram að dómsmálum og kærum vegna leyfisveitinga hefur fjölgað til muna sem hefur leitt af sér umframkostnað vegna þeirra framkvæmda sem um ræðir hverju sinni til viðbótar við drátt á framkvæmdum. Einnig var rætt um eftirlit með framkvæmdum og tækifærum á því sviði til að gera slíkt eftirlit skilvirkara. Var niðurstaða fundarins að vinna að sameiginlegri úttekt þessara mála á Norðurlöndum sem í framhaldinu yrði kynnt fyrir stjórnvöldum, þ.m.t. leyfisveitendum og eftirlitsaðilum, í hverju landi.
Staða orkumála
Á fundinum var jafnframt rætt um stöðu orkumála á Norðurlöndum og þörf á uppbyggingu á því sviði. Staða orkumála í löndunum er krefjandi og þörf á uppbyggingu orkuinnviða, jafnt í orkuvinnslu sem og styrkingu flutningskerfa. Þá standa þjóðirnar frammi fyrir verulegum áskorunum vegna orkuskipta og framleiðslu á vetni en mikil eftirspurn er eftir þeim orkugjafa, jafnt innanlands sem og frá ríkjum meginlands Evrópu, sér í lagi Þýskalandi. Þrátt fyrir aukna eftirspurn eftir orku er það verulegt áhyggjuefni að stjórnvöld eru að slá af ýmis áform um uppbyggingu orkuinnviða en slíkt mun eingöngu auka flækjustig er viðkemur orkuskiptum og síst til þess fallin að ná fram stefnum ríkja á sviði loftslagsmála.
Hagsmunagæsla gagnvart Evrópusambandinu
Farið var á fundinum yfir stefnumótun Evrópusambandsins á sviði orku- og umhverfismála, bæði þær áherslur sem samþykktar hafa verið sem og vinnu sambandsins við nýjar áherslur sem kynntar verða 2026. Ákveðið var að móta sameiginlega stefnu samtakanna á Norðurlöndum og kynna fyrir fulltrúum Evrópusambandsins. Einnig var rætt um að halda sérstakan norrænan viðburð í Brussel þar sem slíkar áherslur yrðu kynntar.
Heimsókn til Paulig
Norrænu fulltrúarnir heimsótti finnska matvælaframleiðandann Paulig sem er einn stærsti sinnar tegundar á Norðurlöndum. Þar var starfsemi fyrirtækisins kynnt fyrir hópnum ásamt því að fulltrúar fyrirtækisins fóru yfir aðgerðir sem fyrirtækið hefur ráðist út í til að lágmarka umhverfisáhrif starfseminnar, jafnt í Finnlandi sem og erlendis.
Norrænu fulltrúarnir heimsóttu matvælaframleiðandann Paulig í Helsinki.
Fulltrúi SI á fundinum, Lárus M. K. Ólafsson, sérfræðingur á sviði orku- og umhverfismála hjá SI, er fyrir miðri mynd í öftustu röð.