Fréttasafn14. sep. 2016 Mannvirki

Norrænu lýsingarverðlaunin afhent í Hörpu

Ljóstæknifélag Íslands stendur fyrir afhendingu Norrænu lýsingarverðlaunanna í Kaldalónssal Hörpu 10. október næstkomandi. Þessi verðlaun eru afhent á tveggja ára fresti og er verið að verðlauna það besta í norrænni lýsingarhönnun á þessu tímabili að mati ljóstæknifélaga Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar.

Öllum vinningshöfum á bakvið verkin 10 sem hafa unnið í sínu heimalandi hefur verið boðið til Íslands og munu þeir kynna verkin sín fyrir dómurum og áhorfendum í Hörpu. Vinningshafi Norrænu lýsingarverðlaunanna 2016 verður síðan tilkynntur í lok dags og fagnað í kokteilhófi síðdegis.

Tveimur fyrirlesurum hefur verið boðið að taka þátt í dagskránni. Um er að ræða Jan Ejhed prófessor við Konunglega sænska tækniháskólann og Marcos Zotes hjá Basalt arkitektum. Jan Ejhed er brautryðjandi í menntun lýsingarhönnuða og hefur gegnt mörgum ábyrgðarstöðum m.a. verið formaður fagsamtaka lýsingarhönnuða. Marcos Zotes hefur getið sér gott orð sem arkitekt og að ljá stöðum nýtt líf með notkun ljóss m.a. á Vetrarhátíð Reykjavík. Þá ætlar Ari Eldjárn að stíga á stokk og skemmta gestum á meðan beðið er eftir að vinningshafi verði tilkynntur.

Stuðningsaðilar Norrænu lýsingarverðlaunanna eru Jóhann Ólafsson & Co umboðsaðili fyrir OSRAM á Íslandi, Samtök iðnaðarins, Johan Rönning, Reykjafell og S. Guðjónsson.

Dagskrá og skráning er á vefsíðunni www.nordisklyspris.com. Einnig er viðburðurinn á Facebook undir heitinu „Nordic Lighting Design Awards 2016“.

Nánar á vef LjóstæknifélagsÍslands .