Fréttasafn



17. jan. 2005

Verður upplýsingatækni þriðja stoðin í verðmætasköpun og gjaldeyristekjum Íslands árið 2010?

ÞRIÐJA STOÐIN

Samtök upplýsingatæknifyrirtækja, í samvinnu við Samtök iðnaðarins og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, efna til ráðstefnu á Nordica hotel 25. janúar frá klukkan 9.00 til 12.30. Á ráðstefnunni verður dregin upp mynd af stöðu, tækifærum og framtíðarsýn upplýsingatækniiðnaðarins.

Upplýsingatækni er ein af stærstu útflutningsgreinum annarra Norðurlanda og stendur undir stórum hluta verðmætasköpunar og nýrra starfa hjá háskólamenntuðu fólki. Ísland hefur alla burði til þess að fylgja öðrum Norðurlöndum í aukinni verðmætasköpun og útflutningi á upplýsingatækni. Á ráðstefnunni verður fjallað um möguleika Íslands, tækifærin og hvaða stefnu beri að taka í þeim efnum.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra setur ráðstefnuna. Wilfried Grommen, framkvæmdastjóri stefnumótunar hjá Microsoft í Evrópu og einn æðsti yfirmaður fyrirtækisins í álfunni, fjallar um möguleika Íslands, sóknarfæri og samanburð við önnur lönd. Frans Clemmesen, sviðsstjóri í ráðuneyti vísinda og tækni í Danmörku, fjallar um markvissa uppbyggingu og stefnu Dana í upplýsingatækniiðnaði. Uppbygging á þessu sviði hefur orðið til þess að iðnaðurinn er orðinn aðalútflutningur Danmerkur.

Þá ræðir Ingvar Kristinsson, formaður Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja, um stöðu upplýsingatækniiðnaðar hér á landi. Einnig hyggst hann fjalla um hvort upplýsingatæknin sé stóra ónýtta tækifærið til öflugrar útrásar sem getur myndað þriðju stoðina í gjaldeyristekjum og verðmætasköpun þjóðarinnar. Á ráðstefnunni verða settar fram tillögur um hlutverk upplýsingatækniiðnaðarins í framtíðar verðmætasköpun og gjaldeyristekjum.

Pallborðsumræður fara fram að loknum flutningi erinda. Þátttakendur verða: Ásdís Halla Bragadóttir, bæjarstjóri í Garðabæ, Ásgeir Friðgeirsson varaþingmaður, Bjarni Benediktsson þingmaður, Friðrik Sigurðsson, forstjóri TölvuMynda hf., Gunnlaugur Sigmundsson, forstjóri Kögunar, og Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Íslandsbanka. Í pallborðsumræðum verður leitað eftir viðhorfum þátttakenda til uppbyggingar atvinnulífs í framtíðinni.

Ráðstefnustjóri verður Sigmundur Ernir Rúnarsson ritstjóri.

Vinsamlega tilkynnið þátttöku á netfangið skraning@si.is eða í síma 591 0100 fyrir 24. janúar. Ráðstefnugjald er 4.900 krónur.

Dagskrá ráðstefnu á pdf formi