Fréttasafn  • ÍAV hlýtur gæðavottun

10. sep. 2009

ÍAV með vottað gæðakerfi

ÍAV hefur náð þeim merka áfanga að vera fyrst íslenskra verktakafyrirtækja í alhliða verktakastarfsemi til að hljóta vottun samkvæmt ISO 9001:2008 staðlinum. Vottunin nær yfir alla starfsemi fyrirtækisins þar með talið þróunar-, hönnunar- og verkefnastýringu í bygginga- og mannvirkjagerð. Hér er átt við allar gerðir húsbygginga, lagningu vega, hafnargerð, jarðgangnagerð, byggingu virkjana o.fl.

Það er ekki eins manns verk að byggja upp gæðakerfi heldur er það verkefni allra starfsmanna fyrirtækisins. ÍAV hafa í um 15 ár unnið samkvæmt gæðakerfi sem byggt var upp af fyrirtækinu sjálfu. Fyrir um tveimur og hálfu ári síðan tók stjórn og framkvæmdastjórn fyrirtækisins ákvörðun um að endurskoða gæðakerfi fyrirtækisins og aðlaga það að kröfum staðalsins ISO 9001. ÍAV gerðu samning við BSI á Íslandi (British Standard Institute) um að annast vottunina og hafa þeir stutt við bakið á fyrirtækinu meðan endurskoðun kerfisins fór fram. Forúttekt á gæðakerfinu fór fram í febrúar 2009 og vottunarúttektin í júní í ár. Með vottuðu gæðakerfi hafa starfsmenn ÍAV öflugt tæki til að stýra verkefnum fyrir kröfuharða viðskiptavini.

Í gær fór fram formleg afhending á skírteininu sem staðfestir vottunina. Athöfnin fór fram í nýbyggingu Tónlistar- og ráðstefnuhússins við Austurhöfn að viðstöddum starfsmönnum ÍAV sem lagt hafa sitt að mörkum til að árangurinn næðist.