Fréttasafn  • Alþingi

1. okt. 2009

Skuggaleg tíðindi

Í fjárlagafrumvarpinu er að finna skuggaleg tíðindi um skattastefnu stjórnvalda. Ekki verður betur séð en þannig sé gengið fram að það leiði til enn frekari stöðnunar og samdráttar. Augljóst er að umsvif í atvinnulífinu munu dragast enn saman og fjárfestingar tengdar orkunýtingu verða í uppnámi.

Jón Steindór Valdimarsson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segist ekki gera lítið úr þeim vanda sem við sé að fást í fjárlagagerðinni og ríkisfjármálunum en hér sé valin leið sem muni auka enn á vandann. Nauðsynlegt sé að örva neyslu og fjárfestingar til þess að koma atvinnulífinu af stað. Það er til lítils að leggja á nýja skatta eða auka þá sem fyrir eru ef það leiðir einungis til þess að þeir sem bera eiga skattana lognast út af og nýir skattgreiðendur verða ekki til. Það verði því að vinda ofan af þessum hugmyndum.