Fréttasafn



  • Mentor hlýtur Vaxtarsprotann

5. okt. 2009

Íslenskir kvenfrumkvöðlar hitta Viktoríu krónprinsessu

Svana Helen Björnsdóttir framkvæmdastjóri Stika og Vilborg Einarsdóttir framkvæmdastjóri Mentors munu hitta Viktoríu krónprinsessu Svíþjóðar í viðhafnarkvöldverði í dag. Þær hafa verið valdar fulltrúar íslenskra kvenfrumkvöðla í Evrópuverkefninu EU Network of Female Entrepreneurship Ambassadors ásamt Höllu Tómasdóttur og Kristínu Pétursdóttur frá Auði Capital.  Verkefnið er unnið í samstarfi Enterprise Europe Network á Íslandi, Noregi og Danmörku.  Markmið verkefnisins er að fá kvenfrumkvöðla sem hafa skarað fram úr á sínu sviði í hverju Evrópulandi til að vera fyrirmynd annarra kvenna og miðla reynslu sinni og þekkingu á stofnun og rekstri fyrirtækja. Á mánudaginn er opnunarfundur verkefnisins og viðhafnarkvöldverður þar sem kvenfrumkvöðlar víða að úr Evrópu koma saman og fá viðurkenningu úr hendi Viktoríu krónprinsessu.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Rannís og Útflutningsráð standa að skrifstofu Enterprise Europe Network á Íslandi og halda utan um verkefnið sem tekur tvö ár. Í valinu á fyrirmyndarfrumkvöðlunum var leitað að konum sem stunda rekstur í upplýsingatækni, byggingatækni og öðrum hátæknigreinum sem stuðla að mikilli atvinnusköpun og auknum hagvexti. Skilyrði fyrir valinu voru m.a. að konurnar hafi náð árangri í rekstri fyrirtækja sinna og að stefna um vöxt og þróun væri skýr, fyrirtækið hafi jákvæða og trúverðuga ímynd í þjóðfélaginu, stefna þess taki mið af samfélagslegri ábyrgð, og að frumkvöðlarnir séu fyrirmyndir bæði faglega og persónulega.

Verkefnið er hluti af Samkeppnis- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins (Competitiveness and Innovation Programme) og því er ætlað að stuðla að aukinni samkeppnishæfni þjóða með því að fjölga kvenfrumkvöðlum í Evrópu. Einungis 25% frumkvöðla á Íslandi eru konur en til samanburðar eru þær 30% frumkvöðla í Danmörku. Þess má geta að Noregur hefur sett það markmið að þessi tala sé 40% þar í landi.