Fréttasafn



  • Fjöreggið 2009

19. okt. 2009

Beint frá býli - Félag heimavinnsluaðila hlaut Fjöregg MNÍ 2009

„FJÖREGG MNÍ” var veitt á Matvæladegi 2009, 15. október sl., fyrir lofsvert framtak á matvæla og næringarsviði. „Fjöreggið” er íslenskt glerlistaverk, hannað og framleitt hjá Gleri í Bergvík. Samtök iðnaðarins gáfu verðlaunagripinn.

Í dómnefnd sátu Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Sigurður Bogason, matvælafræðingur og framkvæmdastjóri Markmar og Sólveig Baldursdóttir ritstjóri Gestgjafans.

Eftirtaldar fimm tilnefningar þóttu skara fram úr þeim fjölda ábendinga sem barst til Fjöreggsins 2009.

Beint frá býli - Félag heimavinnsluaðila fyrir áræði til að auka verðmæti afurða sinna.

Mjólkursamsalan fyrir vöruþróunarstefnu með tilliti til hollustu og heilbrigðis neytenda.

Ólafur Eggertsson á Þorvaldseyri fyrir frumkvöðlastarf við ræktun og markaðssetningu á íslensku byggi og hveiti til manneldis.

Síldarvinnslan Neskaupstað fyrir brautryðjendastarfi í vinnslu uppsjávarfisks til manneldis.

Sölufélag garðyrkjumanna fyrir nýjungar í framboði á fersku, íslensku grænmeti.

Niðurstaða dómnefndar var að Beint frá býli skyldi hljóta fjöreggið. Dómnefndinni þótti félagið sýna mikinn metnað í starfsemi sinni en öryggi og gæði framleiðslunnar eru höfð að leiðarljósi og skilyrði fyrirfélagsaðild er að félagsmenn hafi orðið sér úti um öll tilskilin leyfi til starfseminnar. Starfsemi félagsins eykur úrval svæðisbundinna matvæla og veitir jafnframt öðrum framleiðendum samkeppni sem hvetur þá til að gera enn betur. Heimavinnsla er nátengd ferðaþjónustu og kröfum ferðamanna um fjölbreytt vöruúrval í tengslum við matarhefðir á hverjum stað. Matartengd ferðaþjónusta nýtur mikilla vinsælda nú um stundir og þannig getur félagið lagt sitt lóð á vogarskálarnar í uppbyggingu fjölbreyttrar ferðaþjónustu um allt land.

Hlédís Sveinsdóttir, formaður Beint frá býli, veitti verðlaunum viðtöku úr hendi Ragnheiðar Héðinsdóttur, forstöðumanns matvælasviðs Samtaka iðnaðarins.