Félagsmálaráðherra gefur tóninn
Ársfundur ASÍ stendur nú yfir. Í gær flutti félagsmálaráðherra ræðu þar sem hann hefur væntanlega ætlað að gefa tóninn fyrir lokasprettinn til að halda lífinu í stöðugleikasáttmálanum. Vonandi er ræða hans ekki til marks um viðhorf ríkisstjórnarinnar í þeim efnum.
Það er langt síðan orðræða af því tagi sem félagsmálaráðherra hafði uppi hefur heyrst. Óforskammaðir kapitalistar, útgerðarauðvald, erlendir auðhringar, ginningarfífl stóriðju, grátkór og kveinstafir útgerðar og álfyrirtækja skal það nú heita.
Staðreyndin er sú að atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin hafa staðið við sitt við í tengslum við gerð stöðugleikasáttmálans en ríkisstjórnin ekki. Það er bláköld staðreynd. Skeytasendingar félagsmálsmálaráðherra breyta því ekki. Ekki heldur því að atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin eru samstiga í gagnrýni sinni á ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki staðið við sitt, ekki síst á sviði uppbyggingar í tengslum við framkvæmdir tengdar stóriðju. Sama gildir um afstöðuna til hugmyndanna um orku- umhverfis- og auðlindaskatta sem skellt er fram í fjárlagafrumvarpinu. Þá hafa báðir aðilar gagnrýnt framgöngu umhverfisráðherra varðandi mat á umhverfisáhrifum vegna Suðvesturlínu.
Ekki er gott að átta sig á tilgangi félagsmálaráðherra með ræðu sinni. Erfitt er að minnsta kosti að sjá að henni hafi verið ætlað að vera lóð á vogarskálar þess að halda lífi í stöðugleikasáttmálanum.