Fréttasafn  • Heimsókn í Héðin

3. nóv. 2009

Ungt fólk heimsækir Héðin

Nýlega kom um 20 nemenda hópur úr Ölduselsskóla í heimsókn til málmiðnaðarfyrirtækisins Héðins í Hafnarfirði. Forstjórinn, Guðmundur Sveinsson, tók á móti hópnum, fræddi unga fólkið um fyrirtækið og leiddi það um sali. Samtök iðnaðarins skipulögðu heimsóknina og leigðu rútu.

Héðinn er í nýjum, glæsilegum 5.000m2 húsakynnum í Hafnarfirði. Hjá fyrirtækinu starfa á annað hundrað manns, flest fagmenntaðir málmiðnarmenn og tæknifólk með háskólamenntun. Verkefni Héðins eru margbreytileg; yfirleitt stór og dýr. Héðinn þjónar fyrirtækjum og opinberum aðilum, síður einstaklingum og heimilum. Meðal verkefna Héðins eru viðgerðir á skipum, og vélum og tækjum í áliðnaði.

Nemendurnir, sem eru í 10. bekk, hlýddu á Guðmund forstjóra segja frá starfseminni. Síðan gekk hann með hópinn um sali fyrirtækisins og sýndi starfsemina í öllu sínu veldi. Unga fólkið var áhugasamt, spurði margra spurninga og þótti greinilega mikið til um.

Til eftirbreytni

Ef þetta verkefni kveikir hugmyndir hjá stjórnendum fyrirtækja eða hjá kennurum og námsráðgjöfum þá vinsamlegast hafi þeir samband við Inga Boga Bogason hjá Samtökum iðnaðarins, (s. 824 1626, ingi.bogi@si.is). Samtök iðnaðarins eru reiðubúin að vinna með áhugasömum aðilum, námsráðgjöfum og fyrirtækjum, við að kynna nám og störf í iðnaði.