Norðurlandamót kaffibarþjóna: miðpunktur fræðslu og sköpunar
Um miðjan september sl. var blásið til árlegrar liðakeppni milli Norðurlandaþjóðanna í kaffigreinum, undir heitinu Nordic Barista Cup (NBC). Þetta mót var fyrst haldið árið 2003 með það að markmiði að kaffibarþjónar, brennslumeistarar, kaffihúsaeigendur og aðrir tengdir sælkerakaffi geti komið saman, lært eitthvað nýtt og haft gaman. Það skapast því ákveðið samfélag á meðan mótinu stendur. Skipuleggjendur keppninnar fengu mikla hjálp víðsvegar að úr íslensku menningarlífi, hvort sem það var á sviði lista, framleiðslu eða raungreina.
Á fyrsta deginum hélt Helga Guðrún Johnson, frá Ó. Johnson & Kaaber, innihaldsríka tölu um sögu kaffis á Íslandi og brennslu og uppáhellingu í heimahúsum áður en stóru kaffibrennslurnar komu til sögunar á fjórða áratug 20. aldar.
Verkfræðinemar frá HÍ voru fengnir til að hanna einfaldan kaffibrennsluofn og kvörn, sem liðin áttu að setja saman, brenna og mala eftir kúnstnarinnar list. Sýndu þeir þar með að hugmyndin um að brenna sitt eigið kaffi er alls ekki galin, ef vel tekst til. Liðin fengu einn listamann hverjir fyrir sig í lið með sér; ljósmyndara, vöruhönnuð, fatahönnuð, vídeólistamann og myndlistarmann. Með þeim áttu liðin að skapa verk sem tengdist mótinu og voru verkin boðin upp á lokadegi mótsins.
Tilraunamennskunni var gefinn laus taumur og Brugghúsið Ölvisholt að Ölveri tók sig til og bruggaði kaffibjór sérstaklega fyrir mótið og vakti mikla lukku hjá þeim sem smökkuðu. Bjórinn verður þó ekki settur á markað á Íslandi, sökum lagasetninga um takmörk koffíninnihalds í bjór. Því var hér að finna fágætt og dýrmætt tækifæri til að prófa nýjung sem á sér fáar hliðstæður.
Það sem einkenndi Norðurlandamótið, þegar saman er tekið, var náin samvinna og þekkingarmiðlun sem ætti að vera fyrirmynd að frekara samstarfi milli ýmissa aðila í sælkerageira iðnaðarins.