Aðalfundur SÍL haldinn í nýopnuðu frumkvöðlasetri
Aðalfundur Samtaka íslenskra líftæknifyrirtækja var haldin á dögunum. Kosinn var nýr formaður samtakanna, Jóhannes hjá Genís. Þá gekk Ása Brynjólfsdóttir hjá Bláa Lóninu heilsuvörum í stjórn og Jakob K. Kristjánsson hjá Prókatín situr áfram í stjórninni. Einar Mäntylä hjá ORF Líftækni eru þökkuð vel unnin störf en hann hefur setið í stjórn SÍL í fimm ár, seinustu tvö árin sem formaður.
Aðalfundur SÍL var að þessu sinni haldinn í KíM Medical Park sem opnaði formlega 4. nóvember sl. Fyrirtæki innan raða SÍL sem hafa þar aðsetur kynntu starfsemi sína, en þau eru; SagaMedica sem framleiðir heilsuvörur úr íslenskum jurtum, Lí-Hlaup og Genís sem vinna bæði að lyfjarannsóknum og svo Prókatín sem þróar aðferðir til hreinsunar mengunarefna með líftæknilegum aðferðum.
Kím - Medical Park er frumkvöðlasetur fyrir fyrirtæki í heilbrigðistækni og skyldum greinum og er samstarfsverkefni Nýsköpunarmiðstöðvar, Háskólans í Reykjavík, Háskóla Íslands og iðnaðarráðuneytisins. Nú þegar hafa 12 fyrirtæki með 35 starfsmenn aðstöðu í Kím.
Samtök íslenskra líftæknifyrirtækja (SÍL) voru stofnuð 27. maí 2004, sem starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins. Tilgangur með stofnun SÍL var að skapa vettvang þar sem unnið væri að hagsmuna- og stefnumálum líftæknifyrirtækja og eflingu líftækniiðnaðar á Íslandi. Fram að þeim tíma voru fyrirtæki og frumkvöðlar á sviði líftækni dreifður hópur með tilviljanakennda aðkomu að stefnumótun rannsókna og þróunar atvinnulífs hérlendis. Það er hlutverk SÍL að upplýsa og hjálpa stjórnvöldum að móta samkeppnishæft stoð- og rekstrarumhverfi fyrir þessa langhlaupara meðal hátæknifyrirtækja og sjá til þess að sem flest fyrirtæki hafi möguleika á að dafna og vaxa og færa samfélaginu gullið í langhlaupi þekkingariðnaðarins.