Fréttasafn



  • johanna_sigurdardottir_vef

27. nóv. 2009

Forsætisráðherra tekur af skarið

Forsætisráðherra tekur af skarið

Það er gleðilegt að forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur lýst yfir eindregnum vilja til þess að greiða götu framkvæmda á Suðurnesjum. Samtök iðnaðarins taka heilshugar undir sjónarmið forsætisráðherra. Vonandi eru orð forsætisráðherra ótvíræð merki þess að ríkisstjórnin öll leggist á árarnar í þessum mikilvæga mál.

Framkvæmdir á Suðurnesjum

Forsætisráðherra sagði m.a. í ræðu sinni á á fundi flokksstjórnar Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ laugardaginn 21. nóvember 2009:

„Ég er sannfærð um að öllum hindrunum í vegi Suðvesturlínu, sem er forsenda fyrir þróun orkuháðs iðnaðar á þessu svæði, verði rutt úr vegi þannig að framkvæmdir við hana geti hafist á næsta sumri. Forráðamenn Norðuráls segja nú að framkvæmdir við álver í Helguvík fari á fullt í vor og það mun skapa mikla atvinnu. Ég hef einnig góðar vonir um að vinna við Búðarhálsvirkjun hefjist með vorinu en orku frá henni verður að verulegu leyti ráðstafað til endurnýjaðs álvers í Straumsvík. Við erum hér að tala um ársverk í þúsundum meðan á þessum framkvæmdum stendur.

Allar horfur eru einnig á því að Rio Tinto Alcan hefji innan tíðar tveggja ára verkefni við endurnýjun rafbúnaðar í álverinu í Straumsvík sem skapa mun 600 ársverk meðan á því stendur. Endurnýjunin mun festa framleiðsluaukningu í álverinu og starfsemi þess í sessi næstu áratugi. Í gær ritaði svo Orkuveita Reykjavíkur undir lánasamning við Evrópska fjárfestingarbankann sem tryggir vinnu við 5. áfanga Hellisheiðarvirkjunar og við gerð Hverahlíðarvirkjunar. Ég gæti trúað að hagfræðingar segðu að þessar framkvæmdir komi á hárréttum tíma í niðursveiflu hagkerfisins.“

Ræða Jóhönnu Sigurðardóttur í heild.