Fréttasafn  • Egils appelsin

3. des. 2009

Starfsmaður RSK rýrir traust embættisins

Það er með miklum ólíkindum hvernig yfirmaður eftirlitssviðs ríkisskattstjóra dylgjar um rekstur og ákvarðanir einstaks fyrirtækis og stjórnenda þess. Samtök iðnaðarins ætlast til þess að ríkisskattstjóri sjái til þess að slíkt endurtaki sig ekki.

Samtök iðnaðarins hafa gagnrýnt harkalega skattastefnu stjórnvalda er lýtur að skattlagningu matvæla, hækkun vsk á tilteknum matvælum og álagningu vörugjalda. Að sögn Jóns Steindórs Valdimarssonar, framkvæmdastjóra SI hefur þetta meðal annars verið gert með opnu bréfi til þingmanna og blaðaauglýsingum. Samtök iðnaðarins hafa lagt fram ítarlegar tillögur um aðrar aðferðir við skattlagningu matvæla. Samtökin hafa einnig varað sterklega við afleiðingum þessarar stefnu“ segir Jón Steindór.

Jón Steindór segir Ölgerðina vera dæmi um fyrirtæki sem þessi skattlagning bitnar þungt á. Það segir til sín í sölutölum og enn ætlar ríkisstjórnin að bæta í og leggja enn meiri skatta á þessar vörur. Ölgerðin hefur því neyðst til að bregðast við með þungbærum aðgerðum, m.a. með uppsögnum starfsfólks. Þetta sé í fullu samræmi við það sem Samtök iðnaðarins hafa varað við og óttast að myndi gerast.

Í kjölfar þessa leyfi forstöðumaður eftirlitssvið ríkisskattstjóra sér að koma fram í viðtali á Stöð 2 með fullyrðingar um rekstur Ölgerðarinnar og gefur lítið fyrir skýringar stjórnenda á ástæðum þess að þar sé verið að segja upp fólki. Hér fari forstöðumaðurinn svo langt út fyrir verksvið sitt sem hugsast getur og rýrir vægast sagt það traust sem nauðsynlegt er að skattgreiðendur beri til skattyfirvalda. Hver trúir því eftir þetta að eftirlitsdeild ríkisskattstjóra fari hlutlaust með málefni Ölgerðarinnar undir stjórn forstöðumannsins sem vænir stjórnendur beinlínis um að fara með lygimál. Segir Jón Steindór.

Nei þetta getur ekki gengið - Samtök iðnaðarins trúa ekki öðru en ríkisskattstjóri grípi án tafar til viðeigandi ráðstafana vegna þessa máls.