Fréttasafn



  • CCP

30. des. 2009

CCP hlýtur Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins

Hugbúnaðarfyrirtækið CCP hlaut í dag Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins en Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, afhenti Hilmari Veigari Péturssyni, forstjóra CCP, verðlaunin við veglega athöfn sem fram fór í dag.

Það vekur athygli að þetta er í fyrsta skipti, í 14 ára sögu verðlaunanna, sem frumkvöðull færist yfir í að hljóta Viðskiptaverðlaunin en fyrir þremur árum síðan ákvað Viðskiptablaðið að veita Hilmari frumkvöðulsverðlaun blaðsins. Nú er hins vegar komið fyrirtækið og hann hljóti Viðskiptaverðlaun ársins.

CCP hf. var stofnað árið 1997 og er markmið félagsins að vera leiðandi aðili í því að búa til fjölþátttökuleiki sem spilaðir eru yfir netið. Fyrsti leikurinn, EVE Online, fór i loftið árið 2003 og hefur síðan verið í stöðugri uppbyggingu. Í frétt viðskiptablaðsins kemur fram að þeir sem þekki til í leikjaheiminum ljúki uppi einum munni um að CCP sé með mjög áhugaverða framleiðslu sem virðist höfða mjög sterkt til markhópsins. Félagið hafi markað sér skýra stöðu, sé með sterka framtíðarsýn og á þröskuldi þess að verða að því stórfyrirtæki sem íslenskt atvinnulíf geti horft til.

Þess má geta að fyrr á árinu hlaut CCP Þekkingarverðlaun Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga og á tölvuleikjaráðstefnunni GDC Europe í Köln kynnti fyrirtækið nýjan tölvuleik, DUST 514. Hilmar Veigar framkvæmdastjóri CCP situr í stjórn Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja (SUT) en nýlega voru einnig stofnuð Samtök leikjaframleiðenda (IGI – Icelandic Gaming Industry) sem starfa undir Samtökum iðnaðarins líkt og SUT.