Fréttasafn  • Umhverfismerkið Svanurinn

11. jan. 2010

Prentsmiðjan Oddi fær Svansvottun

Prentsmiðjan Oddi hefur fengið vottun norræna umhverfismerkisins Svansins. Það tryggir að fyrirtækið er í fremstu röð hvað varðar lágmörkun neikvæðra umhverfis- og heilsuáhrifa. Umhverfisráðherra veitti leyfið sl. föstudag í húsnæði Odda.

Jón Ómar Erlingsson, framkvæmdastjóri Odda segir fyrirtækið leggja mikið upp úr því að vörurnar séu framleiddar í sátt við umhverfið. „Umhverfisvottun Svansins er stór þáttur í að tryggja það að Oddi verði áfram í fararbroddi í íslenskum prentiðnaði hvað umhverfismál varðar“ segir Jón Ómar.

Prentsmiðjan Oddi
Prentsmiðjan Oddi var stofnuð árið 1943 og hefur verið fjölskyldufyrirtæki alla tíð. Oddi er stærsta prentsmiðja landsins og með mesta úrval í prentun á Íslandi. Oddi er stærsti umbúðaframleiðandinn á Íslandi, auk þess sem fyrirtækið er eini bylgjuframleiðandinn á landinu. Starfsmenn fyrirtækisins eru um 250. Svansvottunin nær yfir alla prentþjónustu fyrirtækisins, þ.e.a.s. almennt prentverk, tímarit, bækur, bylgjukassa, öskjur o.fl.

Umhverfismál hafa ávallt skipað mikilvægan sess í starfsemi fyrirtækisins, og var Oddi m.a. fyrsta íslenska fyrirtækið til að hljóta umhverfisviðurkenningu Reykjavíkurborgar 1997, auk þess sem það hlaut umhverfisviðurkenningu umhverfisráðuneytisins árið 2004. Með Svansvottun er Oddi að koma til móts við breyttar kröfur viðskiptavina m.a. vegna innleiðingar ríkisins á vistvænni innkaupastefnu.


Kröfur Svansins gagnvart prentsmiðjum:

Samþykkt efni skulu vera að minnsta kosti 95% af allri efnanotkun.

· Lögð er áhersla á notkun umhverfismerkts eða endurunnins pappírs við prentun. Lágmarka á pappírsúrgang við framleiðslu. Flokkun úrgangs skal vera góð og tryggt að allur hættulegur úrgangur hljóti rétta meðhöndlun.

· Hvatt er til notkunar endurnýjanlegra orkugjafa og orkunotkun við framleiðsluna lágmörkuð.

·  Lögð er áhersla á að velja sem mest af umhverfismerktri vöru og þjónustu í innkaupum.

·  Gerð er krafa um reglulega þjálfun og fræðslu starfsmanna ásamt ákveðnum ferlum sem stýra umhverfisstarfinu. Fyrirtækið þarf að uppfylla öll lög og reglugerðir sem eiga við starfsemina.