Háskólinn í Reykjavík í nýtt húsnæði
Háskólinn í Reykjavík flutti í nýja byggingu 11. janúar. Nemendur og kennarar skólans söfnuðust saman við aðalbyggingu skólans í Ofanleiti og gengu fylktu að nýrri byggingu HR í Nauthólsvík. Í gær var síðan haldin formleg opnunarhátíð þar sem um 500 manns komu saman.
Þar fluttu Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri, Svafa Grönfeldt, fráfarandi rektor HR, Ari Kristinn Jónsson, verðandi rektor HR og Sunna Magnúsdóttir, formaður Stúdentafélags HR, stutt ávörp.
Gestum var boðið að ganga um bygginguna og skoða hana, en kennsla hófst síðan samkvæmt stundaskrá.
Fimmtudaginn 14. janúar var síðan haldin vegleg opnunarhátíð þar sem um 500 manns komu saman. Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri klipptu á borða og opnuðu þar með nýbyggingu HR með formlegum hætti. Svafa Grönfeldt og Ari Kristinn Jónsson ávörpuðu samkomuna og að lokum flutti Finnur Oddsson, formaður háskólaráðs og framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands ávarp.
Árið 2006 var ákveðið að ráðast í nýbyggingu Háskólans í Reykjavík og var skólanum fundinn staður í Nauthólsvík, við rætur Öskjuhlíðar.
Þrjár deildir HR af fimm flytja í nýbygginguna núna, tækni- og verkfræðideild, tölvunarfræðideild og viðskiptadeild. Lagadeild og kennslufræði- og lýðheilsudeild flytja svo í sumar og þá verður starfsemi HR öll undir einu þaki.
Sá hluti sem nú verður tekinn í notkun er um 23.000 fermetrar og síðar á þessu ári verður 7.000 fermetra álma tekin í notkun og telst skólinn þá fullbyggður miðað við núverandi stöðu og áætlanir.