Fréttasafn



  • Bjarni Már Gylfason

26. jan. 2010

Verðbólguþróun til marks um samdrátt

„Vissulega er það ánægjulegt að verðbólgan skuli vera hjaðna en verðbólguþróunin leiðir hugann hins vegar af orsökum minnkandi verðbólgu og þeirrar staðreyndar að vextir eru hér enn mjög háir“, segir Bjarni Már Gylfason hagfræðingur Samtaka iðnaðarins. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands lækkaði vísitala neysluverðs um 0,31% í janúar frá fyrra mánuði en án húsnæði breyttist vísitalan ekki. Verðbólgan mælist nú 6,6% en síðustu þrjá mánuði er verðbólga á ársgrunni 3,7%.

„Lækkun á fasteignaverði og útsölur eru að draga verðbólguna niður en skattahækkanir eru hinsvegar að ýta undir hækkandi verðlag. Þessi þróun er skýrt merki þess að eftirspurnarþrýstingur í hagkerfinu er enginn en um leið er forsenda þess að halda stýrivöxtum háum brostin. Að því er virðist duga gjaldeyrishöftin til að koma í veg fyrir fjármagnsflótta úr landinu og því er óþarfi að halda vöxtum háum í sama tilgangi. Til að koma hagkerfinu í gang og vinna gegn atvinnuleysi þarf að koma fjárfestingum af stað.  Áframhaldandi háir vextir eru góð leið til að tryggja að svo verði ekki“ segir Bjarni Már.