Fréttasafn



  • STERKARA ÍSLAND - þjóð meðal þjóða

9. feb. 2010

Áhugi á Evrópuumræðunni vex

Greinilegt er að margir eru að undirbúa sig undir umræðu um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Til marks um það er stofnun félaga og samtaka sem hafa að markmiði að ræða málin og eftir atvikum að leggjast á sveif með eða gegn aðild.

„Ég gleðst yfir þessari þróun” segir Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri SI. Evrópusamtökin og Heimssýn eru nokkurra ára gömul félög sem eru á öndverðum meiði um málið og hafa haldið úti umræðu um málið. Ungir Evrópusinnar stofnuðu með sér félag fyrir skömmu og um síðustu helgu varð til félagið Ísafold sem er félagsskapur ungs fólks sem er á móti aðild.

Félagið STERKARA ÍSLAND - þjóð meðal þjóða er einnig komið fram á sjónarsviðið og má segja að það sé til orðið í framhaldi af undirskriftasöfnuninni fyrir síðustu Alþingiskosningar undir merkjum VIÐ ERUM SAMMÁLA.

Komandi föstudag er boðað til stofnfundar félagsins Sjálfstæðir Evrópusinnar kl. 16:30 í Þjóðmenningarhúsinu, sbr, auglýsingu.

Tilgangur þess félags er að standa vörð um sjálfstæði Íslands, áframhaldandi samvinnu Íslands við vestrænar lýðræðisþjóðir og stuðla að efnahagslegum og pólitískum stöðugleika, trausti, einstaklings- og atvinnufrelsi og frjálsum viðskiptum. Til þess að ná þessum markmiðum vill félagið stuðla að hagstæðum samningi um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Formlegar samningaviðræður um aðild Íslands munu að öllum líkindum hefjast innan nokkurra vikna eða mánaða.

„Af öllu þessu má ráða að umræðan er að fara af stað af fullum krafti. Er vonandi að hún verði málefnaleg og að framtíðarhagsmunir Íslands verði hafðir að leiðarljósi en hefðbundið pólitískt þras og sérhagsmunagæsla látin lönd og leið” segir Jón Steindór.