Fréttasafn  • TulipLineCrpp

15. feb. 2010

TULIP velur Plastprent

Tveggja ára samninga- og prufuferli lokað með samstarfssamningi

Elsta vörumerki Danmerkur og eitt af stærri vörumerkjum í Evrópu á neytenda- og veitingamarkaði velur Plastprent sem birgja.

„Við höfum verið að vinna í þessum samningum í tvö ár,“ segir Ólafur Steinarsson framkvæmdastjóri Plastprents hf. „Í síðustu viku fór fyrsta framleiðslan í okkar umbúðir og gekk allt eins og í sögu. Þetta er samningur til 2012 sem var undirritaður nýverið og er verðmæti hans á annað hundrað milljónir króna. Heildarmatvælaframleiðsla TULIP á ársgrundvelli er um 171.000 tonn þannig að ef vel gengur horfum við fram á frekari vöxt fyrirtækisins sem birgi innan þessa stóra félags.

Það er hægara sagt en gert að komast inn hjá stórum matvælaframleiðendum í Evrópu en við hófum viðræður við TULIP í Danmörku fyrir um tveimur árum síðan. Þá þróuðum við filmu sem við sendum í prufukeyrslu og gekk sérlega vel. Í framhaldi af því tókum við þátt í stóru útboði og náðum inn nokkrum vörulínum í samkeppni við aðra aðila. Þá var gott að vera búinn að komast inn sem viðurkenndur birgi,“  segir Ólafur.  „Eins og við þekkjum, þá standa Danir vel að vígi í matvælaframleiðslu – ekki síst í vörumerkjastjórnun og fyrir okkur hefur það mikla þýðingu að komast inn hjá TULIP.

TULIP hefur orðið tákn fyrir hágæðakjötframleiðslu og er þekkt fyrir útflutning á gæðamatvælum um alla Evrópu, en fyrirtækið selur einnig til  Rússlands og á Japansmarkað. TULIP er með mjög sterk eigin vörumerki eins og TULIP, Majesty, Steff  Holberg, GØL, DAK, Oldenburger og Ugglarp.

Okkar samningur er um vörur fyrir veitingamarkaðinn en í heildina stendur þessi markaður fyrir 23% af heildarframleiðslu TULIP. Þessir viðskiptavinir gera sérstakar kröfur um upplýsingaskyldu, pökkunarstærðir og hagkvæmar umbúðir. Okkar vörulína er í frystum kjötbollum en þar sem framleiðslunni er pakkað frosinni beint í umbúðirnar komu strax í upphafi fram nýjar kröfur fyrir okkur í þróunardeild Plastprents m.a. þarf styrkleiki og þykkleiki filmunnar að vera sérstakur. Í tengslum við það var þróuð filma sem býr yfir þessum pökkunareiginleikum, skilgreindum af TULIP, ásamt því að hafa sérstaka suðueiginleika við frágang. Það er ánægjulegt að segja frá því að bæði þróunar- og hönnunardeild okkar hefur fengið mikið hól frá kaupandanum fyrir fagmennsku og aðstoð við hönnunina á umbúðunum.

Fyrir okkur í Plastprent, sem og iðnaðinn á Íslandi, er þetta mjög ánægjulegur samningur. Hér á landi er víða að finna góða framleiðsluþekkingu sem nýtist vel á stærri mörkuðum.“