Fréttasafn



  • kaka ársins 2010

22. feb. 2010

Kaka ársins 2010

Síðastliðinn föstudag afhenti Hilmir Hjálmarsson, höfundur köku ársins, Ingibjörgu Ragnarsdóttur, liðsstjóra karlalandsliðsins í handbolta, köku í virðingarskyni fyrir framlag hennar til góðs gengis landsliðsins á Evrópumeistaramótinu. Keppnin um köku ársins var haldin í samstarfi við Nóa Siríus og hófst sala á henni um nýliðna helgi, konudagshelgina.

Hilmir Hjálmarsson hjá Sveinsbakaríi bar sigur úr býtum í keppni um Köku ársins sem Landssamband bakarameistara efnir árlega til. Sala á kökunni hófst í bakaríum félagsmanna Landssambands bakarameistara um helgina og verður í sölu það sem eftir er ársins.

Keppnin um köku ársins fer þannig fram að keppendur skila inn tilbúnum kökum sem dómarar meta og velja úr þá sem þykir sameina þá kosti að vera bragðgóð, falleg og líkleg til að falla sem flestum í geð og hlýtur hún titilinn Kaka ársins. Keppnin var haldin í samstarfi við Nóa-Síríus. Alls bárust 10 kökur í keppnina í ár. Sigurkakan er samsett úr dökkum súkkulaðibotni, hvítum botni, núggatmús og hjúpuð með dökkum Konsum orange súkkulaðihjúp.

Dómarar í keppninni voru Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur hjá Samtökum iðnaðarins, Jóhanna Gunnarsdóttir, matvælafræðingur hjá Nóa-Síríusi og Ásthildur Guðmundsdóttir kennari við bakaradeild Hótel og matvælaskólans.