Fréttasafn25. feb. 2010

Merkur áfangi

Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu 27. júlí í fyrra. Í gær ákvað framkvæmdastjórn ESB að mæla með því við ráðherraráð ESB að taka upp aðildarviðræður við Ísland eftir að hafa lagt mat á gögn og svör við spurningum frá Íslandi. Ekki var við öðru að búast en að mælt yrði með viðræðum.

Búist er við því að ráðherraráðið gefi grænt ljós á viðræður í næsta mánuði. Í kjölfarið hefjast þá eiginlegar samningaviðræður og Ísland fær formlega stöðu sem umsóknarríki.

Mikilvæg vinna framundan

Í hönd fer mikilvæg vinna samningamanna Íslands en ekki síður mikilvægur tími umræðna um þýðingu aðildar að Evrópusambandinu fyrir framtíðarhagsmuni Íslands. Er líklegt að við náum betur að sækja fram á öllum sviðum og tryggja lífskjör og rekstrarskilyrði innan eða utan ESB?Þá þarf líka að huga að margvíslegum spurningum sem lúta að pólitískri stöðu og áhrifum og þátttöku í framvindu á alþjóðlegum vettvang á mörgum sviðum. Er óskandi að þessi umræða verði málefnaleg og grundvölluð á heildarhagsmunum og skýrri framtíðarsýn.

Samtök iðnaðarins mun beita sér fyrir umræðu á sínum vettvangi hér eftir sem hingað til og leggja sitt af mörkum til vandaðrar umræðu og þess að aðildarsamningur Íslands verði sá besti sem unnt er að ná.

Framkvæmdastjórn ESB hefur birt ýmis gögn í tengslum við ákvöðrun sína sem er fróðlegt og gagnlegt að kynna sér.
Þau má m.a. finna hér.