Fréttasafn  • Skills Iceland

17. mar. 2010

Skills Iceland - Íslandsmót iðn- og verkgreina 2010

Íslandsmót iðn- og verkgreina verður haldið í Vetrargarðinum í Smáralind dagana 18. – 19. mars nk. Mótið verður fjölbreytilegt og skemmtilegt en þar munu etja kappi 130 manns, allt ungt fólk, ýmist nemar eða nýútskrifaðir sveinar í faggreinunum. Keppt er í yfir 20 faggreinum auk þess sem fleiri greinar verða með sýningu á aðferðum og tækni.

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Ingi Bogi Bogason frá Samtökum iðnaðarins setja Íslandsmótið fimmtudaginn 18. mars kl. 12:30 í Vetrargarðinum.

Keppnin hefst fimmtudaginn 18. mars kl. 9:30 og stendur yfir til kl. 16:30. Á föstudeginum hefst keppnin kl. 9:30 og stendur til kl. 15:30. Verðlaunaafhending er kl. 18:00 föstudaginn 19. mars.

Íslandsmót iðn- og starfsgreina 2010 er einstakur viðburður, en sjaldan hefur gefist jafn gott tækifæri að kynnast jafn mörgum starfsgreinum á sama tíma. Keppninni í ár, sem er sú stærsta sem haldin hefur verið á Íslandi, er fyrst og fremst ætlað að vekja athygli á iðn- og verkgreinum, kynna þær almenningi – ekki síst ungu fólki – og vekja athygli á þeim tækifærum sem felast í námi og störfum í iðngreinum.  

Íslandsmótið er auk þess tækifæri fyrir ungt fólk til sýna fram á færni sína og kunnáttu í iðn- og verkgreinunum. Tekist er á við krefjandi og raunveruleg verkefni í samkeppni sem reynir á hæfni, skipulagshæfileika og fagmennsku.