Fréttasafn



  • Stóriðja

24. mar. 2010

Stóriðjan hefur ekki sóst eftir tilslökunum á umhverfiskröfum

Könnun sem Fréttablaðið birti í gær gefur til kynna að 58% aðspurðra væri andsnúinn tilslökun á umhverfiskröfum til að greiða fyrir stóriðjuframkvæmdum. Bjarni Már Gylfason hagfræðingur Samtaka iðnaðarins segir þessa könnun undarlega og gefa til kynna að stóriðjufyrirtækin séu að sækjast eftir slíku.

„Það er alrangt að stóriðjufyrirtækin séu að sækjast eftir tilslökunum á umhverfiskröfum. Þvert á móti hafa fyrirtækin á Íslandi lagt áherslu á að vera í fremstu röð í heiminum í umhverfismálum og að standast ítarlegar umhverfiskröfur. Því miður gefur könnun Fréttablaðsins í skyn að verið sé að sækjast eftir tilslökunum. Það er einfaldlega rangt. Ennfremur er erfitt að svara svona spurningu þar sem hinn spurði fær enga forskrift um það um hvað séu eðlilegar kröfur í umhverfismálum og hvaða tilslökunum er verið að sækjast eftir. Vissulega hefur seinagangur um uppbyggingu stóriðju verið gagnrýndur sem og málsmeðferð stjórnvalda í vissum tilvikum en það hefur ekkert með neinar tilslakanir í umhverfismálum að gera“, segir Bjarni Már Gylfason.