Fréttasafn



  • Keppandi í hársnyrtingu

22. mar. 2010

Vel heppnað Íslandsmót iðn- og verkgreina

Íslandsmót iðn- og verkgreina, Skills Iceland, fór fram í Smáralind dagana 18. og 19. mars. Þetta var í fimmta sinn sem mótið var haldið og það stærsta hingað til á Íslandi. Um 130 manns kepptu í 15 greinum, málmsuðu, trésmíði, pípulögnum, bíliðngreinum, málaraiðn, dúklagningum, hársnyrtingu, snyrtifræði, grafískri miðlun og ljósmyndun, bakariðn, matreiðslu, framreiðslu, kjötiðn, skrúðgarðyrkju og rafvirkjun.

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra og Ingi Bogi Bogason hjá SI settu mótið formlega í hádeginu á fimmtudag. Við það tilefni lýsti Katrín yfir ánægju með mótið og þakkaði aðstandendum þess fyrir.

Mikill mannfjöldi fylgdist með mótinu sem stóð yfir í tvo daga og lauk kl. 18.00 á föstudag með afhendingu viðurkenningaskjala og verðlaunapeninga.

Skills Iceland er fyrst og fremst ætlað að vekja athygli á iðn- og verkgreinum, kynna þær almenningi – ekki síst ungu fólki – og vekja athygli á þeim tækifærum sem felast í námi og störfum í iðngreinum.  

Íslandsmótið er auk þess tækifæri fyrir ungt fólk til sýna fram á færni sína og kunnáttu í iðn- og verkgreinunum. Tekist er á við krefjandi og raunveruleg verkefni í samkeppni sem reynir á hæfni, skipulagshæfileika og fagmennsku.

 

Sjá úrslit keppninnar hér.