Sigruðu í forritunarkeppni
Um níutíu framhaldsskólanema tóku þátt í forritunarkeppni framhaldsskólanna um helgina. Tækniskólanemarnir Sveinn Fannar Kristjánsson og Jónatan Óskar Nilsson höfnuðu í fyrsta sæti í Alpha deild keppninnar en auk þeirra var Gabríel Arthúr Pétursson úr Fjölbrautaskóla Snæfellinga í sigurliðinu.
Keppnin fór fram í Háskólanum í Reykjavík um helgina og var haldin í samstarfi tölvunarfræðideildar HR, Nýherja og CCP.
Lið Fannars Ásbjörnssonar, Finnboga Darra Guðmundssonar og Elvars Arnar Hannessonar varð í fyrsta sæti í Beta-deild keppninnar. Og Unnar Freyr Erlendsson og Bjarki Ágúst Guðmundsson í fyrsta sæti í Delta-deildinni.
Allir sigurvegararnir nema Gabríel eru nemendur í Tækniskólanum.
Markmið keppninnar er að efla og örva forritunaráhuga íslenskra ungmenna.Um níutíu framhaldsskólanemar tóku þátt í henni og reyndi á forritunarhæfileika þeirra og sköpunargáfu. Þeir sátu því yfir fjölbreyttum verkefnum allan laugardaginn í húsakynnum HR við Nauthólsvík.