Fréttasafn  • logo SI

17. apr. 2010

Breytingar hjá Samtökum iðnaðarins

Samdráttur og efnahagserfiðleikar gera mörgum félagsmönnum SI erfitt fyrir og leiða til verulegs samdráttar í rekstri og gjaldþrota í verstu tilvikum. Á síðustu misserum hefur verið leitað allra leiða til þess að auka þjónustu og baráttu SI fyrir bættum starfsskilyrðum samtímis því að hagræða í eigin rekstri.

Starfsmenn SI eru nú 18 en stöðugildi urðu flest 22,5. Nú síðast var gripið til þess ráðs að fækka um tvo í starfsliðinu og loka skrifstofu sem SI hafa rekið á Akureyri um margra ára skeið. Samkvæmt þessu hefur fækkað um þrjá og hálfan starfsmann í Reykjavík og einn á Akureyri á síðustu árum.

Þrátt fyrir þessar breytingar hefur síst dregið úr starfsemi og þjónustu Samtaka iðnaðarins og þess verður gætt að þær breytingar sem nú var ráðist í bitni ekki á félagsmönnum, hvorki á Akureyri né annars staðar á landinu. Þvert á móti er ætlunin að efla og bæta þjónustuna en með minni tilkostnaði í mannahaldi og skrifstofurekstri.