CCP hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands
CCP hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands. Hilmar Veigar Pétursson forstjóri veitti verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
CCP hljóta verðlaunin fyrir einstakan árangur á heimsvísu í þróun og markaðssetningu fjölþátttöku tölvuleikja. Í fréttatilkynningu segir að fyrirtækið fari fremst í fylkingu fyrirtækja hér á landi sem saman mynda nýja tegund framleiðsluiðnaðar, sem byggir starfsemi sína á sköpunargleði, lifandi hugsun, háþróaðri tölvutækni og viðskiptalegu innsæi.
CCP fær sérhannaðan verðlaunagrip og skjal, auk þess sem verðlaunahafi fær leyfi til að nota merki verðlaunanna á kynningarefni sitt í fimm ár frá afhendingu.