Fréttasafn



  • Byggingaframkvæmdir

17. maí 2010

Vöntun á litlum íbúðum

Samtök iðnaðarins hafa talið ónýttar nýjar íbúðir sem eru fokheldar eða lengra komnar á höfuðborgarsvæðinu og eru þær 1635. Í fjölbýli eru 1179, par-og raðhús eru 303 og einbýlishús 153.

Eftir sveitafélögum er skiptingin eftirfarandi: 

Hafnafjörður  498

Reykjavík      476

Kópavogur     300

Garðabær      163

Mosfellsbær   158

Seltjarnanes   28

Álftanes        12

Í venjulegu árferði þarf að klára 1500 - 1800 íbúðir þannig að ofangreint magn er u.þ.b. ársþörf. Af 1635 íbúðum eru aðeins 260 fullbúnar þannig að ef einhver hreyfing kemst á markaðinn eru þær fljótar að fara. Rétt er að hafa það í huga að frá því að hönnun hefst geta liðið 2 ár þar til íbúð er fullbúin. 

Einkennandi fyrir framboð í fjölbýli er að íbúðirnar eru stórar og íburðamiklar og nánast ekki hægt að finna 2ja herbergja íbúðir sem henta fyrstu kaupendum. Til að koma hjólum byggingaiðnaðarins aftur af stað þarf að lækka verð á lóðum og breyta skipulagi þannig að hægt sé að byggja minni íbúðir og í stað dýrra bílakjallara verði stæði úti. Með þessum breytingum væri hægt að svara kalli markaðarins.

Undanfarin tvö ár hefur verið mikil deyfð yfir byggingamarkaðinum. Á síðasta ári var aðeins lokið við 112 íbúðir í Reykjavík og þarf að leita allt aftur til ársins 1940 til að finna færri íbúðir. Í  Kópavogi var byrjað á 30 íbúðum árið 2009. 

Í ljósi lækkandi innlánsvaxta, hækkandi fjármagnstekjuskatts og takmarkaðra fjárfestingakosta þá er ekki ólíklegt að ýmsir fari að líta á fjárfestingu í steinsteypu sem álitlegan fjárfestingakost.

Upplýsingar í könnuninni eru fengnar frá sveitafélögunum, fasteignasölum og með því að keyra um hverfin.