Fréttasafn



  • Kaffitar

18. maí 2010

Kaffitár 20 ára

Í tilefni 20 ára afmælis Kaffitárs nú í ár bauð fyrirtækið til afmælishátíðar í öllum kaffihúsum þess laugardaginn 8. maí. Boðið var upp á Brasilíukaffi og gómsæta súkkulaðiköku ásamt spennandi heimskaffistemmingu. Í hverju kaffihúsi gætti áhrifa frá einhverju kaffiræktunarlandanna. Þannig var boðið upp á tónlistaratriði frá Brasilíu í Höfðatorgi, skreytingar frá Indónesíu í Kringlunni og á Stapabraut, kólumbíska stemmningu í Smáralind, áhrifa frá Gvatemala gætti í Bankastræti, Afríku var að finna í Þjóðminjasafninu og loks var tónlistaratriði frá Nikaragúa í Flugstöðinni.

Um var að ræða sannkallaða kaffihátíð þar sem gestum og gangandi gafst tækifæri til að skyggnast inn í menningu kaffiræktunarlandanna sem Kaffitár kaupir kaffibaunir frá. Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs segir menningu kaffiræktunarlandanna vera fyrirtækinu hugleikin. „Við erum því stolt af því að geta helgað afmælishátíð okkar kaffiræktunarlöndunum og þeim margbreytileika sem þau bjóða upp á. Við erum svo lánsöm að fá að miklum meirihluta kaffið okkar beint frá bónda, eða án krókaleiða eins og við köllum það.“

Margt var um manninn á kaffihúsunum þennan afmælislaugardag og ljóst að gestir kunnu vel að meta stemmninguna.