GuðjónÓ fagnar 10 ára afmæli Svansvottunar
Elsti leyfishafi Svansmerkisins á Íslandi
Árið 2000 fékk prentsmiðjan GuðjónÓ fyrst leyfi til að merkja sína vöru með Svansmerkinu. Fyrirtækið er elsti leyfishafi Svansins á Íslandi. Á þeim 10 árum sem liðin hefur svansmerktum vörum farið fjölgandi og sífellt fleiri fyrirtæki sem bætast í hópinn.
Þórleifur V. Friðriksson og Ólafur Stolzenwald, prentsmiðjustjórar segja reynslu fyrirtækisins af Svaninum góða. „Við höfum fengið góða svörun frá markaðnum og þeir eru fleiri sem huga að umhverfismálum í dag en áður. Það er ljóst að Svanurinn er líka kerfi sem bætir gæðamálin í prentsmiðjunni og er gott stýrikerfi fyrir stjórnendur prentsmiðjunnar varðandi hinn daglega rekstur.“
Þeir segja fyrirtækið hafa þróast og breyst til hins betra á þessum 10 árum bæði hvað varðar pappírsnýtingu, minnkun á efnum og heilnæmara lofti. „Á þessum tímamótum þökkum við öllum þeim sem hafa gengið þessi skref með okkur og gert í leiðinni rekstur sinn umhverisvænni með að nota Svaninn umhverfismerkið á vöru sína.“