Fréttasafn



  • Seðlabanki Íslands

18. ágú. 2010

Seðlabankinn kom skemmtilega á óvart

 

„Miðað við þann takt sem hefur verið í vaxtalækkunarferlinu undanfarið ár verð ég að segja að ákvörðun Seðlabankans um að lækka stýrivexti um eina prósentu í morgun hafi komið skemmtilega á óvart“, segir Bjarni Már Gylfason hagfræðingur Samtaka iðnaðarins.

„Það er allt sem mælir með myndarlegri lækkun nú og skýrir væntanlega ákvörðun bankans. Innlend eftirspurn er afar veik um þessar mundir, verðbólgan hefur hjaðnað, krónan hefur styrkst, peningamagn í umferð hefur dregist saman og útlán banka eru með minnsta móti. Þótt vextir lækki nú eru þeir enn of háir miðað við það ástand sem enn ríkir í efnahagslífinu. Ég vænti þess því vaxtalækkunarferlið haldi áfram enn um sinn sérstaklega ef óvissu tengdri gengistryggðum lánum verður eytt fljótlega. Lægri vextir ættu að ýta undir frekari útlán og fjárfestingar. Við höfum ekki efni á að láta fjármagnið liggja óhreyft inn á bankareikningum“, segir Bjarni Már.